Vetni verður varaaflgjafi gagnavers Verne Global

08.06.2022Fyrirtækið

Verne Global, sem sérhæfir sig í sjálfbærum gagnaverslausnum fyrir krefjandi tölvuvinnslu, m.a. háhraðatölvuklasa, og Landsvirkjun hafa hafið samstarf sem gerir Verne Global kleift að hefja tilraunaverkefni þar sem vetnisrafall verður nýttur sem sjálfbært varaafl í gagnaveri fyrirtækisins í Reykjanesbæ. Fyrirtækin munu vinna saman að því að auðvelda orkuskipti yfir í grænt vetni sem framleitt er með íslenskri, endurnýjanlegri orku til þess að efla Verne Global enn frekar sem leiðandi fyrirtæki á sínu sviði í sjálfbærum lausnum. Þetta er fyrsta verkefnið af þessu tagi á Íslandi.

Gagnaver Verne Global, sem er rúmlega 16 þúsund fermetrar, var hannað til að veita hátækni gagnaversþjónustu þeim fyrirtækjum sem nota háhraða tölvuvinnslu í sínum rekstri, þar með talið gervigreind, vélnám, háhraðatölvuklasa og ofurtölvur. Á Íslandi er stöðugt flutningskerfi raforku með fullkomlega endurnýjanlega orku og tryggir það að Verne Global getur boðið viðskiptavinum sínum gagnsæi í verði til langtíma. Við það bætist að hagstætt veðurfar á landinu býður upp á kælingu að kostnaðarlausu allan ársins hring. Vilji svo ólíklega til að truflun verði á orkuafhendingu meðan á tilraunaverkefni þessu stendur, mun Verne Global knýja gagnaver sitt með raforku sem framleidd er úr endurnýjanlegri orku í formi vetnis.

„Við hlökkum til að vinna með Verne Global að þessu verkefni og aðstoða fyrirtækið enn frekar við að nýta sér einstaka getu Íslands til að framleiða græna orku,“ segir Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar. „Við erum stolt af því að vera þátttakendur í þessu brautryðjandaverkefni með leiðandi fyrirtæki á sínu sviði, sem á móti mun veita okkur verðmæta innsýn í það hvernig hægt er að hagnýta grænt vetni um allt Ísland og víðar.“

Íslensk NýOrka, sem býr yfir meira en tveggja áratuga reynslu í orkuskiptum, mun annast verkefnið og framkvæma rannsóknir sem verða leiðarljós fyrir fleiri fyrirtæki um hagkvæmi þess að nota vetnisrafal sem varaafl fyrir gagnaver.

„Við leitum sífellt leiða til að þróa frekar leiðandi stöðu okkar sem fyrirtæki sem hefur sjálfbærni að leiðarljósi. Það er því kærkomið tækifæri að vinna með Landsvirkjun og Íslenskri NýOrku að því að láta varaafl afritunargagnaversins einnig nota græna orku,“ segir Dominic Ward, forstjóri Verne Global.