Viðauki við raforkusamning Landsvirkjunar og Norðuráls

07.11.2022Fyrirtækið

Landsvirkjun og Norðurál hafa undirritað viðauka við raforkusamning fyrirtækjanna frá árinu 1997 í þeim tilgangi að draga úr áhættu vegna mikilla verðsveiflna á mörkuðum.

Eftir breytingu verður samningur fyrirtækjanna (161 MW) áfram að stærstum hluta með tengingu við norræna raforkumarkaðinn Nord Pool og að hluta með föstu verði. Að auki bætist við álverðstenging á fast verð síðar á samningstímanum. Samningsaðilar hyggjast aflétta trúnaði eftir þrjú ár, en þangað til er samningurinn trúnaðarmál af viðskiptalegum ástæðum.

Miklar sveiflur hafa orðið á norræna raforkumarkaðnum á undanförnum árum og mun meiri en áður hefur sést á þeim nærri 30 árum sem hann hefur verið starfræktur. Þessar auknu verðsveiflur hafa komið illa við báða aðila samningsins.

Umrædd breyting á samningnum er til hagsbóta fyrir bæði fyrirtækin þar sem hún tryggir fyrirsjáanlegra fjárstreymi beggja aðila til lengri tíma.

Með viðaukanum eru ekki gerðar breytingar á raforkumagni eða gildistíma samningsins.