Viðsnúningur á rekstrarumhverfi

18.05.2021Fjármál

Þriggja mánaða uppgjör Landsvirkjunar

Lesa nánar

Helstu atriði árshlutareiknings

  • Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði nam 50,1 milljón USD (6,3 ma.kr.), en var 46,0 milljónir USD á sama tímabili árið áður og hækkar því um 9%. 1
  • Hagnaður tímabilsins var 31,0 milljón USD (3,9 ma.kr.) en var 33,1 milljón USD á sama tímabili árið áður.
  • Rekstrartekjur námu 130,7 milljónum USD (16,5 ma.kr.) og hækka um 4,5 milljónir USD (3,6%) frá sama tímabili árið áður.
  • Nettó skuldir lækkuðu um 67,7 milljónir USD (8,5 ma.kr.) frá áramótum og voru í marslok 1.608,1 milljón USD (202,6 ma.kr.).
  • Handbært fé frá rekstri nam 85,4 milljónum USD (10,8 ma.kr.), sem er 13% hækkun frá sama tímabili árið áður.

Hörður Arnarson, forstjóri:

„Eftir krefjandi tímabil vegna COVID-19 faraldursins hefur rekstrarumhverfi fyrirtækisins batnað til muna á síðustu mánuðum. Viðskiptavinir okkar í málmiðnaði hafa á síðustu mánuðum aukið raforkunotkun sína og stefna flestir á að fullnýta samninga sína síðar á þessu ári. Þetta gerist samhliða því að spurn eftir málmum hefur tekið við sér og náð fyrri styrk. Álverð hefur þannig hækkað um u.þ.b. 60% frá lægsta verði í faraldrinum, en það var 2.100 dalir á tonn að meðaltali á fyrsta fjórðungi og er nú tæplega 2.500 dalir á tonn. Sala til gagnavera hefur einnig aukist á undanförnum mánuðum og stefnir í metsölu til þeirra á þessu ári.

Þetta gerist samhliða hækkunum raforkuverðs á evrópskum raforkumörkuðum. Meðalverð á Nord Pool var rúmlega 50 dalir á megavattstund á fyrsta ársfjórðungi, en til samanburðar var það á síðasta ári 13 dalir á megavattstund. Meðalraforkuverð Landsvirkjunar til stórnotenda hækkaði á sama tíma um 20% frá fyrra ári, var 27 dalir á megavattstund og hefur ekki verið hærra.

Þessar breyttu aðstæður birtast greinilega í afkomu fyrirtækisins á fyrsta fjórðungi. Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði, sem er sú stærð sem við lítum helst til við mat á rekstri fyrirtækisins, hækkaði um 9% frá sama tímabili árið áður. Þá tókst okkur að setja enn meiri kraft í að lækka skuldir, en nettó skuldir lækkuðu um tæplega 68 milljónir dala – 8,5 milljarða króna – frá áramótum.

Rekstur aflstöðva gekk vel á tímabilinu og áfram gengu ýmis verkefni vel, eins og nýsköpunarverkefnin Orkídea á Suðurlandi, Blámi á Vestfjörðum og Eimur á Norðurlandi.“

[1] Til viðmiðunar eru sýndar íslenskar krónur, notast var við gengi USD/ISK 126.

Fréttatilkynning