Yfirstíganleg verkefni í orkumálum

11.04.2024Orka

Tækifæri til bættrar orkunýtingar eru mikil og það sem upp á vantar í orkuöflun kallar á frekari virkjanir. Það er sameiginlegt úrlausnarefni allra landsmanna að koma að orkuskiptunum. Grein eftir Þóru Arnórsdóttur, forstöðumann Samskipta, fyrst birt í Vísbendingu 5. apríl 2024.

Um orkunýtni

Íslendingar brenna meira en milljón lítrum af olíu og bensíni á ári og greiða fyrir það 100-150 milljarða króna í erlendum gjaldeyri. Við erum flest sammála um að vilja koma þessari tölu niður í núll sem allra fyrst. Samt ætlum við ekki að hætta að keyra, sigla og fljúga – þótt það sé sjálfsagt að reyna að draga úr orkunotkun eins og kostur er og nýta orkuna sem best.

Á COP28, síðustu loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, skrifaði Ísland undir yfirlýsingu sem fór ekki mjög hátt. Þar er Ísland í hópi 118 ríkja sem styðja þreföldun endurnýjanlegrar orku á heimsvísu og tvöföldun á hraða aðgerða til bættrar orkunýtni.

Í nóvember síðastliðnum var reyndar kynnt skýrsla um tækifæri til bættrar orkunýtni hérlendis. Hana vann danska ráðgjafafyrirtækið Implement fyrir Orkustofnun, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið og Landsvirkjun. Lengi hefur verið lögð mikil áhersla á orkunýtni á meginlandi Evrópu og þar er töluvert til af gögnum og rannsóknum þar að lútandi. Hér þurfti hins vegar að byrja á núllpunkti, því litlar sem engar upplýsingar var að hafa. Mögulega er það vegna þess að Íslendingar hafa talið orkuauðlindir sínar svo ríkulegar að það þurfi ekki að huga að orkusparnaði. En hver sem skýringin er var ráðist í verkið og má finna hlekk á afraksturinn í heimildaskrá.

Niðurstaðan var sú að á næstu fimm árum mætti spara allt að 360 gígawattstundir með bættri orkunýtingu. Íslenskt samfélag notaði tæplega 20.000 GWst í fyrra.

Þetta gerist ekki af sjálfu sér

Hér sést hvar tækifærin liggja. Auðsóttastur er orkusparnaðurinn hjá smærri fyrirtækjum og stofnunum. Um er að ræða sparnað sem ekki krefst mikillar fjárfestingar, s.s. útskipti á glóperum fyrir LED lýsingu, bætta kælitækni í verslunum o.s.frv.

Með nokkrum tilkostnaði og meiri fyrirhöfn væri mögulegt að spara hátt í 800 GWst til viðbótar á næsta áratug. Þessi hluti krefst töluverðrar fjárfestingar og fjárhagslegs stuðnings frá stjórnvöldum, því þessi verkefni eru yfirleitt ekki hagkvæm og það dregur því miður úr líkum á að það sé hægt að ná öllum sparnaðinum fram.

Mikilvægt er að hafa í huga að þetta mat er ekki fullkomlega nákvæmt og nauðsynlegt er að ráðast í frekari rannsóknir á þeim tækifærum sem liggja í hverri atvinnugrein. Engu að síður eru þetta gleðifregnir. Ég veit að vísu ekki til þess að gerð hafi verið nein áætlun í kjölfarið til að hrinda þessu í framkvæmd en það er full ástæða til að hvetja stjórnvöld til að móta slíka stefnu því þetta gerist ekki af sjálfu sér.

Hvað vantar þá upp á?

Ef gert er ráð fyrir að ýtrasta orkunýtni náist næsta áratuginn þýðir þetta að spara má allt að 5,7% af þeirri orku sem notuð er núna og munar um minna. Þó hefur gætt þess misskilnings að þetta sé lausnin á öllum vandamálum raforkukerfisins. Nóg sé að auka orkunýtni og ekki þurfi að bæta við framboðið. Skoðum þá tölurnar sem liggja fyrir.

Miðað við hóflegan vöxt atvinnulífsins og nokkuð stór skref í orkuskiptum á landi vantar rúmlega 3.000 GWst til viðbótar á næstu sex árum, samkvæmt spá Landsnets. Bætt orkunýtni gæti skilað um 10% af því eins og sjá má á myndunum hér á næstu síðu.

Orkuskipti á landi og hafi – flugið bíður

Þau fjögur verkefni sem Landsvirkjun er komin lengst með – Búrfellslundur, Hvammsvirkjun, stækkun Þeistareykjavirkjunar og stækkun Sigöldu – munu svo skila um 1.750 GWst af þessum tæplega 3.200. Óvíst er hvaðan hinar rúmlega 1.000 GWst munu koma.

Ef við horfum lengra fram í tímann, eða til 2035, gætum við verið hálfnuð með orkuskipti í landsamgöngum og rúmlega það á hafi, ef viðunandi hvatar fyrir fyrirtæki verða fyrir hendi. Við bætist vöxtur samfélagsins, svo samkvæmt spám þarf enn að bæta um 3.600 GWst við framboðið milli 2030 og 2035.

Þá er gert ráð fyrir því að Landsnet, sem sér um flutningskerfið, verði búið að ryðja öllum flutningshindrunum úr vegi og raforkan flæði óhindrað milli norður- og suðurhluta landsins. Það gæti dregið úr líkum á skerðingum í lélegum vatnsárum og bætt við allt að 300 GWst á ári þegar mest lætur. Ef við náum fram öllum mögulegum orkusparnaði á næsta áratug þá standa eftir rúmlega 2.500 GWst sem vantar upp á á þessu fimm ára tímabili.

Vel gerlegt

Þetta er engan veginn óyfirstíganlegt verkefni og kallar ekki á að hver vindhviða eða spræna verði virkjuð í hvínandi hvelli. Það er vitað að orkuskiptin verða afturþung og í þessum tölum er ekki gert ráð fyrir framleiðslu flugvélaeldsneytis. Sú tækni er það skammt á veg komin að við vitum ekki enn hvort hagkvæmt verði að framleiða það hérlendis.

Til samanburðar má nefna að raforkuframleiðsla hefur aukist um 15% síðasta áratuginn. Landsvirkjun reisti á þessum tíma þrjár af þeim ellefu virkjunum sem fyrirtækið hefur byggt: Búðarhálsvirkjun (2014), Þeistareykjavirkjun (2017) og Búrfell II (2018), sem geta framleitt samtals 2.023 GWst á ári.

Í orkunýtingar- og biðflokki ramma­áætlunar eru núna virkjunarkostir sem geta fullnægt þessari orkuþörf og komið okkur vel áleiðis inn í orkuskipti á hafi og landi, en nokkrir kostir eru í biðflokki þrátt fyrir að verkefnastjórn rammaáætlunar hafi lagt til að þeir færu í nýtingarflokk.

Að loka álveri

En hvað með að nota þá orku sem þegar er framleidd á annan hátt? Loka til dæmis einu álveri og selja öðrum þá orku? Þá þarf ekki að virkja meira, eða hvað?

Þá er rétt að benda á nokkur atriði.

Álver Alcoa á Reyðarfirði er tiltölulega nýtt og er með samning um orkukaup til ársins 2048. Álver Rio Tinto í Straumsvík er með samning til ársloka 2036. Landsvirkjun sér báðum þessum álverum fyrir allri þeirri orku sem þau nota en Norðurál á Grundartanga kaupir orku af mörgum orkuframleiðendum og er með raforkusamninga með mismunandi gildistíma, þann lengsta til 2036. Þeir eru öllum opnir á vefsíðu Norðuráls.

Öllum verksmiðjum sem eru byggðar mun auðvitað einhvern tímann verða lokað. En hver tekur ákvörðun um að loka álveri? Svarið við því er: eigendur þess. Ef orkuverð verður til dæmis of hátt, þá flyst starfsemin annað, það er bara lögmál markaðarins. En ef stjórnvöld tækju þá ákvörðun að taka hreinlega yfir eitt af stærstu fyrirtækjum landsins og loka því gegn vilja eigendanna og svíkja gerða alþjóðaviðskiptasamninga, þá hlýtur að mega gera þá kröfu að búið sé að reikna út kostnaðinn við slíkar aðgerðir. Bæði bein efnahagsleg áhrif og mögulegar skaðabætur sem ríkið yrði krafið um.

Ef hins vegar ekki takast samningar að nýju þegar þar að kemur og eigendur einhvers álversins ákveða að loka eða flytja starfsemina úr landi einhvern tímann á næstu áratugum, þá verður sannarlega hægt að nýta þá orku í aðra starfsemi - en orkan sem losnar þá mun ekki sjá Íslendingum fyrir orku til orkuskiptanna á næstu 10-15 árum.

Ein grunnforsenda þess að hér sé hægt að reka einangrað raforkukerfi með 100% endurnýjanlegri orku, háð náttúrunni og án nokkurs varaafls eins og tíðkast alls staðar annars staðar, er einmitt fyrirsjáanleikinn sem felst í langtímasamningum við stórnotendur. Þannig næst fram góð nýting á kerfi sem krefst þess að nær allur kostnaður sé greiddur í upphafi, þ.e. við byggingu virkjunarinnar, en síðan er rekstrarkostnaðurinn sá sami, hversu mikið vatn sem rennur í gegn eða gufa streymir upp.

Verðið sem stóriðjan greiðir fyrir orkuna hefur að auki hækkað mjög í endursamningum síðustu ára, sem hefur skilað sér í tugmilljarða arð- og skattgreiðslum orkufyrirtækis þjóðarinnar í sameiginlega sjóði.

Grunnur velferðar

Mörgum fannst sárt að Ísland þyrfti að kaupa losunarkvóta fyrir 350 milljónir króna eftir Kyoto-samkomulagið. Ef við náum ekki 40% samdrætti á losun fyrir árið 2030 mun reikningurinn hlaupa á milljörðum króna og það ekki bara einu sinni, heldur á hverju ári þar til við náum að gyrða okkur í brók.

Við getum farið hratt í þriðju orkuskiptin og gert það sama með bíla- og skipaflotann okkar og við gerðum með húshitunina á sínum tíma. En þá þurfa allir að leggjast á eitt; stjórnvöld, atvinnulíf og almenningur. Það þarf að bæta orkunýtni, efla flutningskerfið og vinna meiri orku samkvæmt ramma­áætlun, þeirri sáttaleið um orkuvinnslu sem við höfum komið okkur saman um með lýðræðislegum hætti.

Heimildir

  1. Orkuskipti Nánar
  2. Global Renewables and Energy Efficiency Pledge Nánar
  3. Engin orkusóun - Skýrsla nóv 2023 Nánar
  4. Spá Landsnets um þróun eftirspurnar og framboðs á raforku 2023-2060 Nánar
  5. Haustfundur 2023 - Sveinbjörn Finnsson Nánar
  6. Aflstöðvar - Orka úr 100% endurnýjanlegum orkugjöfum Nánar
  7. Raforkukaup Norðuráls - Nordural Nánar
  8. Ísland kaupir losunarheimildir af Slóvakíu fyrir 350 milljónir Nánar
  9. Ársfundur Landsvirkjunar 2024 Nánar