Frétt

Vel heppnaður fundur um framtíð Norðurlands vestra í Blöndu

25. nóvember 2009

Fundurinn var haldinn í Blöndustöð 18. nóvember síðastliðinn. Landsvirkjun bauð til fundarins í tilefni af Alþjóðlegri athafnaviku og var hann skipulagður í samstarfi við Vaxtarsamning Norðurlands vestra. Umsjón með fundinum var í höndum Sigurborgar Kr. Hannesdóttur, hjá ILDI, þjónustu og ráðgjöf. Um tuttugu þátttakendur hvaðanæva að úr fjórðungnum tóku þátt í líflegum umræðum og hugmyndavinnu.

Nokkur umræða varð um sameiginlega vottaða gæðaímynd NV, sem gæti tekið til fleiri þátta en einungis matvæla af svæðinu. Af öðrum hugmyndum sem hlutu brautargengi, var efling dreifðra og lítilla búa með aukinni samhæfingu þeirra á milli og samþættingu við ferðaþjónustu og fræðslu. Þannig mætti gefa ferðamönnum kost á að taka þátt í daglegu lífi t.d. í formi óvissu- og söguferða. Rætt var um spennandi möguleika í rannsóknum og þróunarstarfi, sem getur skapað virðisauka á ýmsum sviðum. Gagnaver yrði jákvæð viðbót í atvinnulífi á svæðinu, að mati ýmissa fundarmanna.

Norðurland vestra býr yfir fjölmörgum auðlindum sem felast í umhverfi og mannafla á svæðinu. Meðal annars má nefna náttúru, frumvinnslugreinarnar landbúnað og sjávarútveg, verkþekkingu, afurðir og vinnslu, þ.m.t. heimavinnslu, menningu, hesta, handverk og listsköpun, rannsóknir, söfn og setur. Allt þetta er síðan grunnur að eflingu ferðaþjónustu og annarrar nýsköpunar og atvinnuþróunar.

Ákveðið var að fylgja fundinum eftir með því að afla upplýsinga um möguleika varðandi vottun og efna til vinnufundar um málið. Einnig að marka stefnu um rannsóknir og þróunarstarf, fá yfirsýn yfir stefnumótun í ferðaþjónustu á svæðinu í heild og standa fyrir námskeiði um landbúnaðartengda ferðaþjónustu.

Umræðan á fundinum var framhald á gerjun og vinnu sem hefur verið að eiga sér stað á Norðurlandi vestra og styrkti trúna á að halda í þessa átt. Þannig verði „varan" Norðurland vestra þróuð enn frekar og markaðssett. Áherslan verði á sjálfbærni og atvinnusköpun. Myndun tengslanets og frekari umræður eru leiðin til að koma á hreyfingu og til varð listi yfir 42 einstaklinga til viðbótar sem þátttakendur vildu gjarnan að tækju þátt í þessari umræðu og þróunarvinnu.

Vaxtarsamningur Norðurlands vestra mun fylgja fundinum eftir og hefur Landsvirkjun hug á að taka þátt í þeirri vinnu sem framundan er. Áhugasamir geta haft samband við Hjördísi Gísladóttur, framkvæmdastjóra Vaxtarsamnings, hjordis.gisladottir hjá ssnv.is.

Hér má sjá samantekt um vinnuna sem fram fór á fundinum:

Samantekt að loknum fundi í Blöndustöð

 

Blanda-1Blanda-3

Blanda-8Blanda-14

Blanda-hopmynd-1Blanda-2

Fréttasafn Prenta