Frétt

Ísland í fararbroddi í umhverfismálum

3. febrúar 2010
 Steingrímsstöð

 Steingrímsstöð: Dæmi um umhverfisvæna
orkuvinnslu

Ísland er í fararbroddi í mengunarstýringu og nýtingu náttúruauðlinda og því efst landa á lista yfir góða frammistöðu í umhverfismálum, segir í skýrslu sem bandarísku háskólarnir Yale og Columbia hafa nýverið sent frá sér og gefin er út á tveggja ára fresti.

Í fréttatilkynningu frá háskólunum er rakið að Ísland komi vel út úr "umhverfislegri almannaheilsu", hér sé lítil mengun af gróðurhúsalofttegundum og orkan sjálfbær, bæði vatnsaflsorka og jarðhiti. Þá er skógrækt talin til kosta íslenskra umhverfismála.

Í samanburði á milli landa nær Ísland 93,5 stigum af 100 mögulegum. Haft er eftir forstöðumanni hjá Yale að lönd sem taki umhverfismál alvarlega í stefnumörkun sinni hækki á listanum milli ára. Sem dæmi um þetta má nefna að Kosta Ríka er ofarlega vegna aðgerða til að vernda regnskóga, en Kólumbía vegna árangurs við að byggja upp sparneytið kerfi almenningssamgangna.

New York Times greinir frá listanum og vekur athygli á að upplýsingar honum til grundvallar koma frá löndunum sjálfum og gætu því verið óáreiðanlegar. Það að Kúba sé í níunda sæti listans geti verið til marks um það. Á listanum eru Bandaríkin í 61. sæti listans (síðast í 39. sæti) og Kína númer 121 (var í 105. sæti). Danmörk er í 32. sæti.

Skoða má skýrsluna á vef Yale háskóla >>

Fréttasafn Prenta