Frétt

Kynningar- og athugasemdaferli fyrir sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum álvers, virkjana og flutningslína á Norðausturlandi hafið

29. apríl 2010

Alcoa, Þeistareykir ehf, Landsvirkjun og Landsnet hafa undanfarin þrjú ár unnið að mati á umhverfisáhrifum fyrir álver á Bakka við Húsavík, Þeistareykjavirkjun, Kröfluvirkjun II og háspennulínur frá Kröflu og Þeistareykjum að Bakka.  Í samræmi við úrskurð umhverfisráðherra frá 31. júlí 2008 hafa fyrirtækin jafnframt í sameiningu unnið að sameiginlegu mati á umhverfisáhrifum þessara fjögurra framkvæmda. 

Frummatsskýrslur um framkvæmdirnar fjórar og sameiginlegt mat liggja nú fyrir og þann 30. apríl hófst sex vikna opinbert kynningar- og athugasemdaferli á vegum Skipulagsstofnunar.  Tilgangur kynningar á frummatsskýrslum er að fyrirhugaðar framkvæmdir og umhverfisáhrif þeirra séu kynntar fyrir almenningi og hagsmunaaðilum. Þeim sé veitt tækifæri til að koma athugasemdum og ábendingum til Skipulagsstofnunar áður en álit stofnunarinnar um matið liggur fyrir.  Frestur til að skila athugasemdum er til 14. júní 2010.

Sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum, þar sem fleiri en ein framkvæmd eru metnar saman, hefur ekki verið unnið áður á Íslandi en það var framkvæmt samkvæmt leiðbeiningum frá Skipulagsstofnun og í nánu samráði við stofnunina. Frummatsskýrslan um sameiginlega matið gefur yfirlit yfir allar framkvæmdirnar fjórar, sameiginleg umhverfisáhrif þeirra og helstu einstök áhrif önnur.  Að öðru leyti eru frummatsskýrslur fyrir hverja framkvæmd sjálfstæðar.

Markmið með þessum fjórum verkefnum er að nýta orku í jörðu á viðkomandi vinnslusvæðum til að byggja upp undirstöðuatvinnugrein á Norðausturlandi og styrkja þannig stoðir byggðar í landshlutanum og að skapa verðmæti með tekjum af orkusölu, orkuflutningi og útflutningsframleiðslu. 

Í sameiginlega matinu eru umhverfisáhrif allt að 346 þúsund tonna álvers á Bakka metin. Uppbygging álversins mun haldast í hendur við framkvæmdir til orkuöflunar.  Raforkusamningar liggja ekki fyrir á þessu stigi undirbúnings en sameiginlega matið tekur til orku til álversins frá Kröfluvirkjun II (150 MW) og Þeistareykjavirkjun (200 MW). Umhverfismat fyrir Bjarnarflagsvirkjun (90 MW) liggur þegar fyrir og er samanlagt afl þessara þriggja virkjana 440 MW.  Miðað við áætlaða mestu stærð álversins, sem lögð er til grundvallar í sameiginlegu mati á umhverfisáhrifum, þarf allt að 137 MW afl til viðbótar en vonir standa til að þeirri þörf verði unnt að mæta síðar frá jarðhitasvæðum í Þingeyjarsýslum og samtengdu raforkukerfi landsins.  Þessi atriði skýrast með frekari rannnsóknum og vinnslu og jafnframt mun stefnumótun stjórnvalda skýrast með niðurstöðum rammaáætlunar um vernd og nýtingu náttúrusvæða.

Skýrslurnar má nálgast hjá Skipulagsstofnun en einnig á heimasíðum Skipulagsstofnunar, framkæmdaaðilanna fjögurra, Mannvits hf og HRV hf. 

Fremst í frummatsskýrslu um sameiginlegt mat er að finna stutta samantekt um framkvæmdirnar, gildandi skipulag og sameiginleg áhrif á helstu umhverfisþætti.

Nánari upplýsingar veitir Sigurður Arnalds, verkefnisstjóri sameiginlega matsins, hjá Mannviti hf.  Sími 422 3000, farsími 892 8311 og netfang ssta@mannvit.is

 

Fréttasafn Prenta