Frétt

Raunveruleikatékk í aflstöðvum Landsvirkjunar

18. maí 2010

 

(c) Kristleifur Björnsson
Kristleifur Björnsson, Every Second Day, 2009


Landsvirkjun og Listahátíð í Reykjavík hafa myndað samstarf um að flytja sýninguna Raunveruleikatékk í aflstöðvar Landsvirkjunar.

Listahátíð í Reykjavík hefur undanfarin ár lagt áherslu á að flytja verkefni á dagskrá hátíðarinnar út á landsbyggðina. Að loknum sýningartíma í miðbæ Reykjavíkur þann 28. júní verður ljósmyndasýningin flutt í nágrenni stöðva Landsvirkjunar um allt land.

Landsvirkjun leggur mikla áherslu á að opna stöðvar fyrirtækisins fyrir almenningi yfir sumartímann. Undanfarin sumur hafa sex stöðvar fyrirtækisins verið opnar ferðafólki og þúsundir manna nýtt sér það tækifæri að kynna sér orkuvinnslu úr endurnýjanlegum orkugjöfum.

Landsvirkjun hefur um árabil boðið fjölbreyttum hópi listamanna að sýna verk víða um land og sýningin Raunveruleikatékk verður í þeim stöðvum Landsvirkjunar sem opnar eru ferðafólki.

Á meðan Raunveruleikatékk í 101 Reykjavík myndar ákveðna gönguleið sem á sér rætur í gamla rúntinum mun Raunveruleikatékk á landsbyggðinni mynda hringleið sem kallast á við ferðalög íslenskra og erlendra ferðamanna. Sýningin hefst 3. júlí og stendur til 31. ágúst í eftirtöldum stöðvum:

  • Búrfellsstöð
  • Ljósafossstöð
  • Blöndustöð
  • Laxárstöð
  • Kröflustöð
  • Végarði við Fljótsdalsstöð

Sýningarstjóri er Æsa Sigurjónsdóttir listfræðingur. Í umfjöllun hennar segir að sýningunni sé meðal annars ætlað að vekja upp spurningar um þátttöku og samstarf myndlistarmanna og fyrirtækja, um aflstöðvarnar sem sýningarstaði á mörkum menningar, byggingarsögu og náttúru : „Þegar myndir eru fluttar úr listrýminu yfir á óhefðbundna sýningarstaði verða þær ágengar og kalla fram viðbrögð gesta sem varla geta látið þær fram hjá sér fara. Einnig vakna spurningar um inngrip og áhrif mynda. Hvað má sýna og hvar? Hvað má sjást og hvað þarf að fela? Í stöðvum Landsvirkjunar er myndunum ætlað að halda áfram að opna umræðuna um virkni lista í almannarými“, segir Æsa.

Þátttakendur í sýningunni eru : Daníel Þorkell Magnússon, Eggert Jóhannesson, Ieva Epnere, Ingvar Högni Ragnarsson, Kristleifur Björnsson, Silja Sallé, Spessi, og Vigfús Sigurgeirsson.

   Listahátíð í Reykjavík 

Fréttasafn Prenta