Frétt

Landsvirkjun styrkir Tilraunalandið á ferð um landið

12. júlí 2010

 

Nú er komið að því að kynna Tilraunalandið víðar um landið og er Landsvirkjun aðalstyrktaraðili ferðarinnar.

Tveir vagnar fullir af fjörugum tilraunum Tilraunalandsins munu skrölta um landið og heimsækja hvern bæinn á fætur öðrum. Akranes, Búðardalur, Stykkishólmur og Grundarfjörður eru meðal fyrstu staða sem heimsóttir verða.

Í júlí verður einnig farið til Blönduóss, Sauðárkróks og Húsavíkur.

Í ágúst er ferðinni meðal annars heitið til Selfoss, Egilsstaða og Akureyrar. Ferðalaginu lýkur svo á Ljósanæturdögum í Reykjanesbæ í september.

Litskrúðugir vagnar Tilraunalandsins vekja hvarvetna athygli, enda fagurlega merktir Tilraunalandinu.

„Tilraunalandið hefur gefist mjög vel í Vatnsmýri og verið mikið sótt af hópum úr grunnskólum, leikskólum og leikjanámskeiðum, sem og fjölskyldufólki,“ segir Þuríður Helga Kristjándóttir, verkefnastjóri Tilraunalandsins. „Af þeim sökum hefur verið ákveðið að gefa fleirum færi á að kynnast vísindunum á þennan lifandi og skemmtilega hátt með því að taka sýninguna á ferð um landið í sumar og það er með góðum styrk Landsvirkjunar sem það tekst.“

Hægt er að fylgjast með ferðum Tilraunalandsins á síðunni tilraunalandid.wordpress.com.

Nánari upplýsingar um Tilraunalandið má fá á vef Norræna hússins, www.norraenahusid.is.

Fréttasafn Prenta