Frétt

12 milljónum úthlutað í ár til 37 fjölbreyttra verkefna

20. desember 2016

Samfélagssjóður Landsvirkjunar úthlutaði á dögunum tæpum 6 milljónum króna til fjölbreyttra verkefna um land allt. Úthlutað er úr sjóðinum þrisvar á ári, að hámarki 12 milljónum króna yfir árið.

Verkefnin sem hlutu styrk að þessu sinni eru 14 talsins og af margvíslegum toga. Má þar nefna stuðning við stofnun súpustrætós Hjálpræðishersins. Ingvi Kristinn Skjaldarson, flokksforingi hjá Hjálpræðishernum, segir að mjög sé brýnt að fara af stað með verkefni sem snýr að heimilislausum og utangarðsfólki. „Það er mikill skortur og þörf fyrir stað eða rútu, sem hýst getur fólk yfir daginn og á næturnar yfir köldustu mánuðina, þar sem mjög oft er fullt hjá neyðarskýlinu hjá Reykjavíkurborg,“ segir hann.

Annað verkefni sem fær styrk er jólaaðstoð Rauða krossins á Íslandi. Kristín S. Hjálmtýsdóttir framkvæmdastjóri Rauða krossins segir að styrkur Landsvirkjunar nýtist fólki um allt land, en flestar deildir Rauða krossins veita aðstoð til einstaklinga og fjölskyldna fyrir jólin.  Að sögn Kristínar kemur stuðningur Landsvirkjunar sér afar vel fyrir þá sem illa standa og auðveldar þeim að halda hátíðleg jól.

Á meðal annarra verkefna sem fá stuðning má nefna jólaðstoð mannúðarsamtaka á Eyjafirði,  verkefni um eflingu kvenna í körfuknattleik og íshokkí  og ráðstefnu um kynferðisofbeldi gegn körlum.

Verkefnin sem styrkt voru að þessu sinni eru:

 • Rauði krossinn á Íslandi – Jólaaðstoð - 1.000.000 krónur
 • Hjálpræðisherinn í Reykjavík – Súpustrætó Hersins - 1.000.000 krónur
 • Meistaranemar í heilbrigðisvísindum við Háskólann á Akureyri ásamt kennurum, skólastjórnendum og rannsóknarmiðstöð HA gegn ofbeldi - Einn blár strengur - 500.000 krónur
 • Brynjar Karl Sigurðsson og Bryndís Gunnlaugsdóttir - Fjölgum kvenþjálfurum í körfuknattleik - 500.000 krónur
 • Íshokkísamband Íslands - Barna og unglingastarf, forvarnir og jafnrétti - 500.000 krónur
 • Félagasamtökin Sumartónleikar og Kórastefna við Mývatn - Sumartónleikar við Mývatn / Lake Mývatn Concert Series - 400.000 krónur
 • Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri - Forritun er leikur einn, tækjaforritun í leik- og grunnskóla - 280.000 krónur
 • Mæðrastyrksnefnd Akureyrar, Hjálparstarf kirkjunnar, Hjálpræðisherinn á Akureyri og Rauði krossinn við Eyjafjörð – Jólaaðstoð - 250.000 krónur
 • Rauði krossinn í Reykjavík – Konukot - 250.000 krónur
 • Barnaheill - Vináttuverkefni Barnaheilla, grunnskólaefni - 250.000 krónur
 • Heimili og skóli, landssamtök foreldra – Einelti, góð ráð til foreldra - 250.000 krónur
 • Systkinasmiðjan - Námskeið fyrir systkini einstaklinga með sérþarfir - 200.000 krónur
 • Pieta Ísland - Þýðing og á fræðsluefni varðandi sjálfsskaða- og sjálfsvígshættu einstaklinga - 200.000 krónur
 • Listahátíðin List án landamæra - Spunanámskeið og sýning í leiklist fyrir fólk með þroskahömlun - 200.000 krónur

Sjá má yfirlit um alla styrki á árinu 2016 hér.

Um samfélagssjóð Landsvirkjunar

Sjóðurinn var stofnaður árið 2010 í þeim tilgangi að halda utan um styrkveitingar Landsvirkjunar. Tekið er á móti umsóknum allt árið en úthlutað er úr sjóðnum þrisvar á ári. Umsóknarfrestur er til 25. mars, júlí og nóvember ár hvert.

Samfélagssjóður úthlutar að hámarki 12 milljónum króna í þremur úthlutunum. Að jafnaði eru styrkir á bilinu 100 til 500 þúsund og aldrei hærri en ein milljón króna.

Stefna sjóðsins er að styðja verkefni sem hafa breiða samfélagslega skírskotun og möguleika á að hafa jákvæð áhrif á íslenskt samfélag. Er þar einkum um að ræða verkefni á sviði umhverfis, náttúru og auðlindamála; mannúðarsamtaka og líknarfélaga; lista, menningar og menntunar, forvarnar- og æskulýðsstarfs; heilsu og hreyfingar.

Nánar er hægt að kynna sér sjóðinn hér

Fréttasafn Prenta