Frétt

Húsfyllir á fundi um nýsköpun í orkugeiranum

18. nóvember 2010

Fundurinn Nýsköpun í orkugeiranum er hluti af Alþjóðlegri athafnaviku og fluttu sérfræðingar frá Landsvirkjun og Háskólanum í Reykjavík fjögur erindi.

Óli Grétar Blöndal Sveinsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Landsvirkjunar kynnti rannsóknarverkefni um áhrif loftslagsbreytinga á rennsli og nýtingu virkjana. Miðað við niðurstöður mælinga má gera ráð fyrir auknu rennsli vegna hlýnunar á næstu árum og áratugum.

Úlfar Linnet, sérfræðingur í orkuathugunum hjá Landsvirkjun fjallaði um stöðu rannsókna á vindorku. Hann sagði rannsóknir um margt vera á byrjunarreit, verið væri að afla þekkingar til þess að geta tekið ákvörðun um hvort fýsilegt væri að reisa vindorkustöðvar hérlendis.

Edvard G. Guðnason, deildarstjóri sölu- og markaðsdeildar Landsvirkjunar fjallaði um sæstreng til Evrópu. Hann sagði sæstreng tæknilega mögulegan en verkefnið framundan væri að komast að niðurstöðu um það hvort lagning sæstrengs væri arðbær fjárfesting. Edvard benti á að ekki væri um að ræða magnútflutning á orku um sæstreng, heldur eingöngu sölu á toppafli inn á markað í Evrópu þegar verð væri hátt.

Eyþór Rafn Þórhallsson, dósent við Háskólann í Reykjavík kynnti nýjar hugmyndir um háspennulínumöstur. Hópur hefur verið stofnaður utan um hugmyndina, sem vinnur að útfærslu nýrrar gerðar háspennulínumastra, með áherslu á markað í Evrópu.

Erindi Óla, Úlfars og Edvards má sjá hér:

Nýsköpun í orkugeiranum Nýsköpun í orkugeiranum

Nýsköpun í orkugeiranum IMG_0467

 

Fréttasafn Prenta