Frétt

Landsvirkjun áformar fjárfestingar fyrir 1,5 milljarð króna í verkefnum á Norðausturlandi 2011

17. desember 2010
Í áætluninni er gert ráð fyrir auknum fjármunum í rannsóknir og undirbúning virkjana á Norðausturlandi, bæði af hálfu Landsvirkjunar og dótturfélags hennar, Þeistareykja ehf. Landsvirkjun hefur þegar varið um 9 milljörðum íslenskra króna í rannsóknir á Norðausturlandi. 
 
Áætlað er að verja rúmlega 720 milljónum króna til áframhaldandi rannsókna og annars undirbúnings á Þeistareykjum. Þar er fyrirhugað að boruð verði ein rannsóknarhola, farið verði í verkefni tengd vegagerð og fjárfest verði í frágangi við borholur. Auknu fé verður einnig varið til ýmissa rannsókna og mælinga. Á Þeistareykjum er nú til reiðu orkugeta upp á um það bil 45 MW.
 
Um 580 milljónum króna verður varið í rannsóknir og undirbúning á Kröflusvæði. Umfangsmestu rannsóknir á svæðinu beinast að því að ná tökum á nýtingu gufu úr holum með hátt sýrustig. Á Kröflusvæði er þegar til reiðu gufa fyrir 50-60 MW virkjun, ef mögulegt reynist að nýta súra gufu.
 
Tæpar 200 milljónir króna eru áætlaðar í undirbúning Bjarnarflagsvirkjunar á næsta ári. Gert er ráð fyrir álagsprófunum borhola, úrvinnslu úr mælingum, öðrum rannsóknum auk fjárfestinga í mælibúnaði.  Þar eru nú til reiðu um 45 MW.
 
Aukin áhersla verður jafnframt lögð á markaðsstarf af hálfu Landsvirkjunar á árinu 2011 sem meðal annars mun miða að því að ná samningum við viðskiptavini sem hafa áhuga á að byggja upp starfsemi á Norðausturlandi.

Fréttasafn Prenta