Frétt

Samkomulag Landsvirkjunar og Norðuráls um orkuviðskipti

2. ágúst 2002
Um er að ræða stækkun úr 90.000 tonnum í 180.000 tonn. Samkomulagið er gert með fyrirvara um samþykki stjórna. Samkomulagið er einnig háð fyrirvörum, m.a. um að Norðurál tryggi sér hráefni til stækkunarinnar og gangi frá fjármögnun hennar, samningar takist um orkuverð og að leyfi fáist fyrir nauðsynlegum orkuframkvæmdum þ.á.m. Norðlingaölduveitu.

Aflþörf stækkunar 150 MW
Orkuþörf vegna stækkunar álversins í 180.000 tonn er um 1300 GWst á ári, eða sem jafngildir meðalaflþörf upp á 150 MW. Í samkomulaginu er miðað við að Landsvirkjun afli orku til stækkunarinnar m.a. með orkuframkvæmdum á Þjórsársvæðinu og jarðgufuvirkjunum Hitaveitu Suðurnesja og Orkuveitu Reykjavíkur.

30 milljarða framkvæmd
Í samkomulaginu er kveðið á um að Norðurál gangi frá samningum um útvegun á rafskautum og súráli, sem eru helstu hráefni til framleiðslunnar. Jafnframt þarf að ljúka fjármögnun verkefnisins, en nokkrar erlendar fjármálastofnanir hafa þegar sýnt áhuga á að taka að sér fjármögnun stækkunarinnar. Gert er ráð fyrir því að fyrri áfanginn, þ.e. stækkun úr 90.000 í 180.000 tonn, muni kosta allt að þrjátíu milljarða króna á núverandi gengi.

Norðurál hefur í hyggju að byggja tvo nýja kerskála á Grundartanga sem hafi um 150.000 tonna grunnafkastagetu. Verða þeir staðsettir norðan við núverandi kerskála og samsíða þeim. Þessi stækkun er talin hagkvæmasta stærðin fyrir næsta áfanga, en að hún verði gerð í tveimur hlutum. Núverandi starfsleyfi nær til 180.000 tonna ársframleiðslu en meðal fyrirvara samkomulagsins við Landsvirkjun er að samþykkt verði starfsleyfi fyrir allt að 300.000 tonna framleiðslu álversins. Skipulagsstofnun féllst á stækkun álversins í vor að undangengnu mati á umhverfisáhrifum.

Norðurál þarf að gera viðauka við núverandi fjárfestingarsamning um skatta og skyldur gagnvart ríki og sveitarfélögum, þar með talið fasteignagjöld og tekjuskatt. Enn fremur þarf fyrirtækið að semja við hafnaryfirvöld á Grundartanga um aðstöðu og endurgjald fyrir notkun hennar að undangengnu mati á umhverfisáhrifum.

13 milljarða verðmætaaukning
Gert er ráð fyrir því að ráðnir verði allt að 150 nýir starfsmenn til Norðuráls, verði af fyrirhugaðri stækkun í 180.000 tonn. Nú starfa rösklega 200 manns í álverinu á Grundartanga og eru um 85% þeirra búsett á Akranesi, í Borgarnesi og öðrum nágrannasveitarfélögum en um 15% búa á höfuðborgarsvæðinu.

Miðað við meðalverð á áli og núverandi gengi íslensku krónunnar mun stækkunin í 180.000 tonn auka verðmæti útflutnings frá Íslandi um 13 milljarða króna á ári og heildarverðmæti útflutnings frá Norðuráli mun þá nema um 26 milljörðum á ári. Ef samningar takast um stækkunina er gert ráð fyrir að undirbúningur framkvæmda á Grundartanga hefjist á næsta ársi og að nýi áfanginn verði tekinn í notkun árið 2005.

Fréttasafn Prenta