Frétt

Iðnaðarráðherra veitir leyfi fyrir Kárahnjúkavirkjun

3. september 2002

Leyfið er veitt með eftirtöldum skilyrðum varðandi byggingu og rekstur virkjunarinnar:

Fara ber að skilyrðum umhverfisráðherra í úrskurði, dags. 20. desember 2001, um mat á umhverfisáhrifum vegna Kárahnjúkavirkjunar.

Tekið verði tillit til ábendinga Orkustofnunar varðandi vöktun og skráningu á rennsli og vatnshæð vatnsfalla á áhrifasvæði virkjunarinnar í samræmi við ákvæði vatnalaga.

Í samræmi við lög nr. 15/1923 mun ráðuneytið fljótlega birta auglýsingu í Lögbirtingarblaðinu varðandi hina ráðgerðu virkjun, þar sem þeim, er hagsmuna eiga að gæta, er gefinn kostur á að gera athugasemdir við virkjunaráformin. Er leyfi þetta bundið því skilyrði, að Landsvirkjun ábyrgist úrlausn þeirra mála, sem rísa kunna vegna slíkra athugasemda, að höfðu samráði við ráðuneytið.

Samhliða útgáfu virkjunarleyfisins undirrituðu iðnaðarráðherra og forstjóri Landsvirkjunar samkomulag um hvernig semja beri um endurgreiðslu til Orkusjóðs á rannsóknarkostnaði vegna Kárahnjúkavirkjunar en samkvæmt lögum nr. 49/1999 um Orkusjóð ber framkvæmdaraðila að endurgreiða Orkusjóði kostnað vegna rannsókna og áætlanagerðar, sem kostaðar hafa verið með fé ríkisins, þar með töldu fé Orkusjóðs.

Virkjunarleyfi Kárahnjúkavirkjunar undirritað
Sitjandi frá vinstri: Agnar Olsen, Friðrik Sophusson, Valgerður Sverrisdóttir og Þorgeir Örlygsson.
Fyrir aftan þau standa þeir Hjörtur Torfason og Kristján Skarphéðinsson.

Fréttasafn Prenta