Frétt

Rannsóknaboranir á Vestursvæði við Kröflu í Skútustaðahreppi

16. september 2002

Rannsóknirnar eru nauðsynlegur liður í öflun upplýsinga um eiginleika jarðhitasvæðisins í Kröflu til að ganga úr skugga um hvort vinnanlegan jarðhita sé að finna á vestursvæðinu.

Framkvæmdin felst í lagningu vegslóða, gerð borstæða, borun rannsóknahola og prófun þeirra. Gert er ráð fyrir að framkvæmdin verði áfangaskipt og verður tekin ákvörðun um 2. og 3. áfanga í ljósi niðurstaðna úr rannsóknum í 1. áfanga. Þess er vænst að niðurstöður rannsóknanna nýtist til að ákvarða vinnslusvæði og gera langtímaáætlun um virkjun jarðhitans við Kröflu. Ef nægilegar upplýsingar fást úr 1. áfanga verða ekki boraðar fleiri rannsóknaholur á þessu svæði.

Skipulagsstofnun telur unnt að fallast á báða þá kosti sem framkvæmdaraðili kynnir varðandi förgun affallsvatns þar sem um tímabundnar aðgerðir verður að ræða sem munu hafa óveruleg áhrif á umhverfið. Þar sem óvissa ríki um rennslisleiðir grunnvatns á svæðinu og dreifingu/þynningu mengunarefna leggur Skipulagsstofnun áherslu á nauðsyn þess að framkvæmdaraðili afli frekari upplýsinga um þessa þætti hið fyrsta. Niðurstöður slíkra rannsókna ásamt vöktun á afdrifum og áhrifum affallsvatns munu að mati Skipulagsstofnunar geta varpað ljósi á hvort lífríki Mývatns stafi hætta af förgun affallsvatns vegna framkvæmda við Kröflu.

Skipulagsstofnun telur að framkvæmdirnar muni hafa óveruleg áhrif á gróður og að ólíklegt sé að þær muni hafa veruleg áhrif á fuglalíf enda verði framkvæmdum haldið í lágmarki á varptíma. Stofnunin telur eðlilegt að lokað verði fyrir almenna umferð eftir vegslóð að borsvæðinu a.m.k. á varptíma til að draga úr áhrifum á ránfugla.

Skipulagsstofnun telur að fyrirbyggja megi veruleg áhrif framkvæmdanna á ferðamenn vegna hávaða og mengunar andrúmslofts með mótvægisaðgerðum sem gerð er grein fyrir í framlögðum gögnum framkvæmdaraðila. Skipulagsstofnun telur að lagning vegslóðar og gerð borteiga á vestursvæði Kröflu muni skerða lítt snortna og athyglisverða landslagsheild og valda þannig verulegum og óafturkræfum áhrifum á ásýnd Leirhnjúkshrauns sem nýtur sérstakrar verndar samkvæmt lögum um náttúruvernd. Hins vegar verði ekki um veruleg áhrif að ræða á jarðfræðilegt verndargildi hraunsins. Það er því niðurstaða Skipulagsstofnunar að framkvæmdin muni ekki hafa umtalsverð áhrif á jarðmyndanir og landslag í för með sér.

Fyrirhugaðar jarðhitaboranir á vestursvæði Kröflu í Skútustaðahreppi eru ekki í samræmi við aðalskipulag Skútustaðahrepps og þarf að breyta því. Skipulagsstofnun mælir með að í breytingu á aðalskipulagi verði afmörkuð iðnaðarsvæði vegna jarðhitavinnslu í samræmi við kröfur skipulagsreglugerðar. Fyrirhugaðar framkvæmdir á vestursvæði eru háðar framkvæmdaleyfi Skútustaðahrepps og starfsleyfi heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra. Framkvæmdirnar falla einnig undir ákvæði laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Bent er á að breytingar á aðalskipulagi Skútustaðahrepps eru háðar samþykki Náttúruverndar ríkisins. Samkvæmt lögum um náttúruvernd skal áður en framkvæmdaleyfi er veitt liggja fyrir áætlun um væntanlega efnistöku.

Skipulagsstofnun telur mikilvægt að unnin verði landnýtingar- og verndaráætlun fyrir Kröflusvæðið áður en leyfi verður veitt fyrir rannsóknarboranir á vestursvæði við Kröflu.

Á grundvelli gagna framkvæmdaraðila lögðum fram við athugun, umsagna, athugasemdar og svara framkvæmdaraðila við þeim er það niðurstaða Skipulagsstofnunar að fyrirhugaðar rannsóknarboranir á vestursvæði Kröflu í Skútustaðahreppi muni ekki hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér.

Fréttasafn Prenta