Frétt

Máldagi um rekstur þjóðveldisbæjarins undirritaður

19. júlí 2002

Föstudaginn 19. júlí var skrifað undir máldagann og fór undirskriftarathöfnin fram í bænum sjálfum að viðstöddu fólki, sem komið hefur að rekstri bæjarins frá upphafi. Davíð Oddsson forsætisráðherra flutti ávarp ásamt Jóhanni Má Maríussyni og Steinþóri Gestssyni. Söngkvartettinn Perluvinir úr Skeiða- og Gnúpverjahreppi söng nokkur lög. Þeir sem undirrituðu máldagann voru Davíð Oddsson, forsætisráðherra, Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, Margrét Hallgrímsdóttir, þjóðminjavörður og Már Haraldsson, oddviti Skeiða- og Gnúpverjahrepps.

Á undanförnum árum hefur þjóðveldisbærinn verið rekinn með fé frá aðgangseyri og aðstoð frá Landsvirkjun og Gnúpverjahreppi eftir atvikum, en forsætisráðuneytið sem er eigandi bæjarins hefur ekki lagt neina fjármuni fram í þessu skyni. Með máldaganum er nú gengið frá því með samningi að forsætisráðuneytið leggi tvær milljónir króna árlega, til rekstrar og viðhalds bæjarins og endurbóta og að Landsvirkjun leggi fram eina milljón árlega. Einnig leggur Landsvirkjun áfram til ígildi tveggja stöðugilda fyrir það tímabil sem þjóðveldisbærinn er opinn gestum í því skyni að veita þeim nauðsynlega fræðslu og þjónustu eins og Landsvirkjun hefur gert síðan starfsemin í bænum hófst.


Þjóðminjasafn Íslands mun leggja hússtjórninni til ráðgjöf og aðra faglega aðstoð vegna viðhalds þjóðveldisbæjarins og þeirrar starfsemi sem þar fer fram án endurgjalds. Skeiða- og Gnúpverjahreppur leggur til alla nauðsynlega aðstoð vegna skipulagsmála er þjóðveldisbænum tengjast og annast allar merkingar og uppbyggingu gönguleiða. Jafnframt leggur hreppurinn til fjármagn þegar sérstaklega stendur á. Formaður bæjarstjórnar er Friðrik Sophusson og með honum í stjórn eru Hallgerður Gísladóttir, tilnefnd af Þjóðminjasafni Íslands, og Gunnar Þór Jónsson, tilnefndur af Skeiða- og Gnúpverjahreppi.

Með máldaganum er nú gengið frá málefnum þjóðveldisbæjarins með formlegum hætti og lýkur þar með óvissuástandi sem ríkt hefur frá upphafi um þjóðveldisbæinn og orðið hefur til þess að Landsvirkjun hefur á umliðnum árum orðið að hlaupa undir bagga án þess að eigandinn legði sitt af mörkum.

Þjóðveldisbærinn er tilgátubær reistur samkvæmt húsaskipan bæjarins að Stöng. Bæjarstæðið er í landi Skeljastaða, en þar var búið á þjóðveldisöld. Bærinn er í næsta nágrenni Búrfellsstöðvar og fjölmargir heimsækja hann á ári hverju. Margir þeirra leggja einnig leið sína í virkjanir á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu. Það fer því vel á því að Landsvirkjun hafi umsjón með þjóðveldisbænum.

 

Fréttasafn Prenta