Frétt

Umfangsmikil viðhaldsverkefni í Laxárstöð í sumar

5. júlí 2011

Endurnýjun á aðrennslispípu fyrir Laxá II og endurbætur á þrýstijöfnunartanki eru stærstu verkefnin. Pípan er keypt frá Noregi og verður pípueiningunum skipað upp á Húsavík til geymslu þar til þær verða lagðar á sinn stað síðar í sumar. Jöfnunartankur verður einangraður og klæddur að utan, og er það von Landsvirkjunar að með nýju útliti verði eftirleiðis meiri prýði af tankinum í landslaginu. Einnig er unnið að viðgerð á vatnshjóli í Laxá II sem og að endurbótum á inntaksmálum stöðvarinnar.

Á framkvæmdatíma má gera ráð fyrir lítilsháttar töfum á umferð í næsta nágrenni við vinnusvæðið en allar merkingar og mögulegar lokanir verða unnar í nánu samstarfi við Vegagerðina. Verklok eru áætluð í september.

Landsvirkjun leggur nú sem endranær áherslu á góða umgengni á verkstað og kappkostar að eiga góð samskipti við hagsmunaaðila. Fyrirtækið vekur athygli á að vegna viðhaldsverkefna og framkvæmdum þeim tengdum verður ekki mögulegt að taka á móti gestum í Laxárstöðvar í sumar eins og fyrri ár.

Fréttasafn Prenta