Frétt

Heildarmiðlunarforði í lónum lægri vegna kuldatíðar

6. júlí 2011

Heildarmiðlunarforði í lónum Landsvirkjunar er nokkuð lægri í dag en í meðalári. Ástæður þess má einkum rekja til kuldatíðar á Norður- og Austurlandi. Miðlunarforði Landsvirkjunar stendur nú í 58% samanborið við 65% í meðalári. Á sama tíma í fyrra var miðlunarforðinn 71%  en síðasta ár var mjög gott vatnsár. Ástæður þess má rekja til hlýinda á landinu og mögulega aukinnar jöklabráðnunar vegna ösku frá eldgosi úr Eyjafjallajökli.

Óvenju mikil kuldatíð í maí og júní á Norður- og Austurlandi eru helstu ástæður þess að miðlunarforði er lægri en í meðalári.  Miðlunarlón Landsvirkjunar standa misvel.  Fylling Þórisvatns er rúmlega 80% sem er um 5% meira en í meðalári,  fylling Blöndulón 75% sem er um 10% meira en í meðalári. Fylling Hálslóns er um 25% í dag en í meðalári er fylling þess um 40% á þessum tíma.  Hálslón er um fjórtán metrum lægra nú en í meðalári, en hefur hækkað um tvo metra í síðustu viku.

Enn er gert ráð fyrir að miðlunarlón Landsvirkjunar fyllist í sumar. Það er þó að því gefnu að veðurfar hlýni á Norður- og Austurlandi.

Miðlunarforði vatnsáranna 2010 og 2011

Fréttasafn Prenta