Frétt

Dregur úr rennsli um Hágöngulón

14. júlí 2011

Rennsli um Hágöngulón fer minnkandi jafnt og þétt, og var að morgni 14. júlí um 160 rúmmetrar á sekúndu. Eftir hlaup úr Vatnajökli í gær var rennslið 240 rúmmetrar á sekúndu, en talið er að það hafi farið upp í tvö þúsund rúmmetra á sekúndu á meðan á hlaupinu stóð aðfararnótt 13. júlí.

Samkvæmt jarðvísindamönnum kom hlaupið úr katli sem er við Hamarinn og fór vatnið um Hamarslón niður ána Sveðju og þaðan niður í Hágöngulón. Nokkuð öruggt er talið að orsökin sé áður óþekkt háhitasvæði sem sé þar undir jöklinum.

Vatnamælingamenn Landsvirkjunar hafa tekið sýni úr vatninu, sem vísindamenn Veðurstofunnar munu greina, en sýnin geta gefið nánari vísbendingar um eðli og upptök hlaupsins.

Við hlaupið fylltist Hágöngulón og fór rennslisaukningin niður Köldukvísl og niður í Þórisvatn þar sem nægilegt rými er fyrir aukið rennsli. Atburðurinn stefndi hvorki öryggi fólks né eignum Landsvirkjunar á svæðinu í hættu .

Landsvirkjun fylgist áfram náið með rennsli á svæðinu.

Fréttasafn Prenta