Frétt

Athugun á lagningu sæstrengs

9. október 2002

Samningur þessi felur ekki í sér neinar skuldbindingar af hálfu Landsvirkjunar um að ráðast í gerð virkjana og sæstrengs með þessum aðilum.

Um er að ræða frumkvæði Norðmanna sem hafa áhuga á að kaupa endurnýjanlega raforku frá Íslandi. Nokkur fundahöld hafa átt sér stað hér á landi og í Noregi vegna þessa máls.

Samstarfssamningurinn felur í sér að fyrirtækin þrjú kanni þann möguleika að framleiða rafmagn með endurnýjanlegri orku á Íslandi til útflutnings um sæstreng til Noregs, orkuvinnslusvæði í Norðursjó eða Bretlands. Könnunin mun skoða markaðsmöguleika græns rafmagns, framleiðslu og flutningskostnað og skýra hvað þarf að gera til að orðið geti af verkefninu.

Statoil hefur birt upplýsingar um þetta mál á heimasíðu sinni og í norskum fjölmiðlum með villandi hætti. Meðal annars hefur upplýsingafulltrúi Statoil greint frá því í fréttum RÚV að í skoðun sé bygging einnar 600 MW jarðgufuvirkjunar hér. Svo er ekki. Hið rétta er að verið er að kanna möguleika á að útvega endurnýjanlega orku.

Verkaskipting við hagkvæmnikönninuna er að Statoil kannar hagkvæmni, Statnett flutning orkunnar en Landsvirkjun aflar upplýsinga um nýtingu endurnýjanlegrar orku á Íslandi.

Landsvirkjun lítur á þetta verkefni sem tækifæri til þess að fylgjast með þróun í tækni og markaðsmálum rafmagns í Evrópu.

Líta þarf á þetta sem mögulegt framtíðarverkefni sem gæti orðið að veruleika eftir tíu ár eða jafnvel síðar. Landsvirkjun hefur áður kannað möguleika á sæstreng og þá komist að þeirri niðurstöðu að flytja mætti að hámarki um 600 megavött milli landa.

 

Fréttasafn Prenta