Frétt

Tvö tilboð bárust íráðgjafaþjónustu vegna fyrirhugaðra jarðhitavirkjana á Norðausturlandi

9. ágúst 2011

Um er að ræða útboð sem felur í sér útboðshönnun, gerð útboðsgagna og endanleg hönnun vegna fyrirhugaðra framkvæmda við allt að 90 MW virkjun í Bjarnarflagi og 90 MW virkjun á Þeistareykjum ásamt aðstoð við eftirlit með uppsetningu vél- og rafbúnaðar o.fl.. Landsvirkjun og Þeistareykir ehf. standa saman að útboðinu.

Tilboðin voru opnuð og nöfn bjóðenda lesin upp af Landsvirkjun í heyranda hljóði í viðurvist fulltrúa bjóðenda, Landsvirkjunar og Þeistareykja ehf.

Tvö tilboð bárust frá þremur verkfræðistofum, annars vegar frá Mannviti ehf. og Verkís ehf., og hinsvegar frá Eflu ehf.

Tilboðin verða nú lögð fyrir matsnefnd sem metur hvort bjóðendur standist þær kröfur um hæfi sem gerðar voru í útboðsgögnum. Gert er ráð fyrir að liðið geti um þrjár vikur frá opnun tilboða þar til niðurstaða fæst í mati á hæfi bjóðenda. Að því loknu munu verðtilboð þeirra bjóðenda sem stóðust kröfur um hæfi verða opnuð og þau metin.  Stefnt er að því að niðurstaða útboðsins liggi fyrir í byrjun september


Útboðið var auglýst á evrópska efnahagssvæðinu og rann frestur til að skila inn tilboðum út þann 9. ágúst 2011.

Tilboð opnuð í ráðgjafaþjónustu vegna fyrirhugaðra jarðhitavirkjana á Norðausturlandi

Á myndinni eru (frá hægri): Einar Mathiesen framkvæmdarstjóri Landsvirkjunar og stjórnarformaður Þeistareykja, Árni Gunnarsson yfirverkefnisstjóri Landsvirkjun Power, Pétur Pétursson innkaupastjóri Landsvirkjunar, Jóhann Kröyer  verkefnisstjóri Landsvirkjun Power og Óli Grétar Sveinsson framkvæmdarstjóri þróunarsviðs Landsvirkjunar, við opnun tilboðanna.

Fréttasafn Prenta