Frétt

Sex mánaða uppgjör Landsvirkjunar birt í dag

16. ágúst 2011

Helstu atriði árshlutareiknings

  • Rekstrartekjur námu 217,9 milljónum USD (25,1 ma.kr.) sem er 20,3% aukning frá sama tímabili árið áður.1
  • EBITDA nam 179,2 milljónum USD (20,6 ma.kr.). EBITDA hlutfall er 82,3% af veltu, en var 79,4% á sama tímabili í fyrra.
  • Handbært fé frá rekstri nam 132,7 milljónum USD (15,3 ma.kr.) sem er 20,6% aukning frá sama tímabili árið áður.
  • Hagnaður eftir skatta nam 23,4 milljónum USD (2,7 ma.kr.), en var 15,7 milljónir USD á sama tímabili árið áður.
  • Meðalraforkuverð til iðnaðar var 29,6 USD/MWst á tímabilinu en var 25,7 USD/MWst árið 2010. Meðalraforkuverð í heildsölu var 3,6 kr./kWst en var 3,4 kr./kWst árið áður.
  • Lausafjárstaða Landsvirkjunar er sterk og hafði fyrirtækið í lok júní aðgang að 545,0 milljónum USD (62,7 ma.kr.). Sterk lausafjárstaða er fyrirtækinu nauðsynleg til að standa straum af afborgunum lána á næstu árum.

 

Hörður Arnarson, forstjóri:

„Afkomubatinn á fyrri árshelmingi er vel viðunandi. Tekjuaukningu má fyrst og fremst rekja til breytinga á samningum um raforkuverð svo og hækkandi álverðs. Á sama tíma hækkar rekstrarkostnaður óverulega á milli tímabila.

Það er ánægjulegt að lykilmælikvarðar um fjárhagslegan styrk fyrirtækisins þróast áfram í rétta átt þótt enn vanti upp á að fyrirtækið standist samanburð við erlend raforkufyrirtæki og kröfur erlendra matsfyrirtækja. Við munum halda áfram að bæta þessar kennitölur.

Framkvæmdir við Búðarháls eru nú í fullum gangi og gert er ráð fyrir að virkjunin taki til starfa haustið 2013. Næstu verkefni fyrirtækisins verða síðan á Norðausturlandi þar sem í ár er unnið að umfangsmiklum undirbúningi virkjana í Bjarnarflagi og á Þeistareykjum.

Fyrirtækið hefur mætt miklum áhuga viðskiptavina, nýrra jafnt sem eldri, á kaupum á raforku en gera má ráð fyrir að aðstæður í efnahagsmálum heimsins ráði miklu um hvenær samningar takist. “

 

Lykiltölur úr rekstri

 

Um árshlutareikninginn

Árshlutareikningur Landsvirkjunar er gerður samkvæmt alþjóðlegum reikningsskila­stöðlum (IFRS) og er hann í Bandaríkjadölum sem er starfrækslugjaldmiðill móður­félagsins. Meðal tekna eru nú færðar innleystar áhættuvarnir tengdar álverði sem voru áður færðar á meðal fjármunatekna og fjármagnsgjalda. Breytt framsetning í rekstrarreikningi hefur ekki áhrif á afkomu samstæðunnar eða fjárhagsstöðu.

 

Rekstrarreikningur

Rekstrartekjur Landsvirkjunarsamstæðunnar hækkuðu um 36,7 m USD á fyrstu sex mánuðum ársins 2011 frá sama tímabili árið áður, eða úr 181,2 m USD í 217,9 m USD, sem skýrist aðallega af hærra orkuverði til iðnaðar. Hærra orkuverð kemur til vegna hærra álverðs á heimsmarkaði, endursamninga og þróunar verðlags. Meðalheild­söluverð til almenningsrafveitna (án flutningskostnaðar), var 3,6 kr./kWst á tímabilinu janúar til júní 2011 samanborið við 3,4 kr./kWst árið áður. Meðalverð til iðnaðar var 29,6 USD/MWst á tímabilinu janúar til júní 2011 en var 25,7 USD/MWst árið áður. Meðalverð til iðnaðar er reiknað með flutningskostnaði þar sem það á við.

Rekstrarkostnaður án afskrifta og virðisrýrnunar nam 38,7 m USD á tímabilinu en var 37,4 m USD á sama tímabili árið áður. Rekstrarhagnaður samstæðunnar fyrir afskriftir, EBITDA, nam 179,2 m USD. Að teknu tilliti til afskrifta nam rekstrar­hagnaður, EBIT 125,4 m USD. EBITDA hlutfallið er 82,3% en var 79,4% fyrir sama tímabil 2010. Vaxtagjöld hækka milli tímabilanna sem og innleystur gjaldeyrismunur. En meðalnafnvextir langtímalána voru um 3,03% á tímabilinu janúar til júní 2011 en voru um 2,57% árið áður, að teknu tilliti til ríkisábyrgðargjalds. Hluti af orkusölu­samningum móðurfélagsins eru tengdir þróun álverðs. Alþjóðlegir reikningsskila­staðlar krefjast þess að sú tenging sé reiknuð upp sem innbyggð afleiða. Reiknuð breyting á verðmæti þessarar innbyggðu afleiðu færist í rekstrarreikning og getur haft mikil áhrif á fjármagnsliði félagsins. Gjaldeyrismunur og gangvirðisbreytingar eru að mestu leyti óinnleyst og verður að hafa það í huga við mat á afkomu fyrirtækisins. Hagnaður tímabilsins var 23,4 m USD en 15,7 m USD á sama tímabili árið áður.

Til að gefa betri sýn á rekstrarafkomu samstæðunnar þá eru óinnleystir fjármagnsliðir sérgreindir í framsetningu stjórnenda. Þar má sjá að hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði nam 50,5 m USD á tímabilinu en var 47,5 m USD á sama tímabili árið áður sem er 6,3% aukning.

 

Efnahagsreikningur

Heildareignir Landsvirkjunar voru samkvæmt efnahagsreikningi 4.780 m USD í lok júní 2011. Eigið fé fyrirtækisins var 1.670 m USD og hefur eiginfjárhlutfall hækkað. Það var 34,9% í lok júní 2011 en 34,0% í lok árs 2010.

Afborganir samstæðunnar umfram lántökur námu 178,2 m USD á tímabilinu. Til hækkunar á skuldum kemur reiknað gengistap vegna langtímaskulda félagsins, aðallega tengt lánum í EUR, 116,8 m USD. Nettó skuldir Landsvirkjunar námu 2.684,8 m USD í lok júní.

Handbært fé í lok júní 2011 var 193,3 m USD og að auki hefur fyrirtækið aðgang að samningsbundnum veltilánum og er óádreginn hluti þeirra 351,7 m USD. Laust fé var því alls 545,0 m USD. Veginn meðallíftími lánasafnsins var um 7,5 ár í lok júní.

 

Sjóðstreymi

Landsvirkjun skilaði góðu sjóðstreymi á tímabilinu að teknu tilliti til tekjugrunns. Veltufé frá rekstri (FFO) nam 129,6 m USD á móti 114,2 m USD fyrir sama tímabil árið 2010. Handbært fé frá rekstri samstæðunnar nam 132,7 m USD. Áhersla var á lausafjárstýringu í stað fjárfestinga og námu fjárfestingarhreyfingar um 26,2 m USD. Afborganir lána umfram lántökur námu 178,2 m USD eins og áður var getið.

Handbært fé fyrirtækisins lækkaði um 72,2 m USD á tímabilinu og var handbært fé í lok júní 193,3 m USD.

 

Kennitölur

Þrátt fyrir að nettó skuldir hækki á tímabilinu vegna reiknaðra liða, þá batna kennitölur þeim tengdar. Skuldsetning samstæðunnar mæld á móti rekstrarhagnaði fyrir afskriftir (nettó skuldir / EBITDA) lækkar úr 8,97x í árslok 2010 í 8,05x í lok júní 2011. Einnig batnar hlutfall veltufjár frá rekstri (FFO) á móti nettó skuldum og fer úr 8,2% í 8,7% í lok júní 2011.

Þegar litið er til fjármagnsliða þá lækkar vaxtaþekjan (EBITDA/vaxtagjöld) í 3,2x en var 3,51x í árslok 2010. Hlutfall veltufjár frá rekstri (FFO) á móti vaxtagjöldum lækkar úr 2,58x í enda árs 2010 í 2,32x.

Þar sem arðsemi eiginfjár reiknast frá hagnaði þá geta innbyggðar afleiður og óinnleystur gjaldeyrismunur haft mikil áhrif á niðurstöðuna, en arðsemi eigin fjár hækkaði úr 4,7% fyrir árið 2010 og var 5,1% í lok júní 2011.

 

Horfur í rekstri

Framkvæmdir við Búðarhálsvirkjun ganga samkvæmt áætlun. Landsvirkjun hefur tryggt fjármagn til verkefnisins. Unnið er að undirbúningi næstu virkjanaframkvæmda sem gert er ráð fyrir að verði í Bjarnarflagi og á Þeistareykjum, með frekari borunum eftir jarðhita, vegagerð og með útboði á vinnu við hönnun virkjananna sem nú stendur yfir.

Tekjur Landsvirkjunar eru enn að umtalsverðu leyti háðar álverði á heimsmarkaði. Álverð er viðunandi um þessar mundir þó óvissa sé um þróun næstu misserin. Þá er vaxtastig á helstu fjármálamörkuðum lágt sem nýtist Landsvirkjun vel þar sem meirihluti lána ber breytilega vexti. Því standa vonir til að sjóðsmyndun verði áfram góð. Afkoma fyrirtækisins mun því sem fyrr ráðast að miklu leyti af þróun álverðs, vaxta og gjaldmiðla.

 

Árshlutareikningur Landsvirkjunar janúar til júní 2011

Fréttatilkynning Landsvirkjunar um árshlutareikninginn

 

[1] Til viðmiðunar eru íslenskar krónur í yfirliti, notast var við gengið USD/ISK 115 

 

Fréttasafn Prenta