Frétt

Sumarhópar Landsvirkjunar ljúka störfum eftir afkastamikið sumar

19. ágúst 2011

Ár hvert ræður Landsvirkjun fjölda ungmenna á aldrinum 16-20 ára ásamt háskólanemum til starfa víðs vegar um landið. Í ár störfuðu 197 ungmenni og 52 háskóla- og sérskólanemar hjá Landsvirkjun. Ungmennin störfuðu við aflstöðvar og við verkefnið „Margar hendur vinna létt verk“ en í gegnum það verkefni gefst félagasamtökum, sveitafélögum og stofnunum kostur á að óska eftir vinnuafli sumarflokka Landsvirkjunar við verkefni sem skila sér í auknum umhverfisgæðum og betri aðstöðu til útivistar og ferðamennsku. Sumarhópar Landsvirkjunar hafa í ár unnið með fjöldamörgum aðilum að landgræðslu, fegrun og umhirðu um land allt.

Sumarvinnufólkið fær einnig fræðslu og situr námskeið af ýmsu tagi svo sem skyndihjálparnámskeið og hópeflisnámskeið.

 

Reykjavík

Í borginni störfuðu 50 ungmenni í umhverfishópum ásamt fjórum verkstjórum. Verkefni sumarsins hafa að vanda verið mjög fjölbreytt, en öll verkefni þessa hóps koma í gegnum „Margar hendur vinna létt verk”. Þá ber helst að nefna samstarf við Skógræktarfélag Reykjavíkur og Skógræktarfélag Hafnarfjarðar, en um 20 manna hópar hafa unnið í Heiðmörk og við Gróðrarstöðina Þöll við Hvaleyrarvatn. Þá hafa unglingarnir unnið með Rauða krossinum og verið til aðstoðar á námskeiðinu Mannúð og menning.

Svokallaður Flökkuhópur hefur unnið mörg verkefni á landsbyggðinni. Í samvinnu við Ferðafélagið Útivist hefur hópurinn unnið að lagfæringum á göngustígum og slóðum í og við Bása í Þórsmörk ásamt því að setja upp merkingar, stikur og skilti. Hópurinn hefur unnið með Framfarafélagi Þykkvabæjar og nágrennis við aðstoð að landgræðsluverkefni ásamt því að lagfæra stikur við göngustíg meðfram Hvítá í samvinnu við Flóahrepp. Þá hefur hópurinn unnið að lagfæringu göngustíga og frágang við skála hjá Golfklúbbi Vatnsleysustrandar. Flökkuhópurinn og Reykjavíkurhópurinn hafa í sumar gróðursett yfir 60.000 trjáplöntur.

 

Stöðvar Landsvirkjunar á landsbyggðinni

Sumarvinnuhópar á stöðvum Landsvirkjunar víðs vegar um landið sinna hefðbundnum viðhaldsstörfum ár hvert s.s. umhirðu á nágrenni stöðvanna, grasslætti, hirðingu beða, lagningu göngustíga og málningarvinnu.  Auk hinna hefðbundnu sumarstarfa hafa ungmennin sinnt margvíslegum mikilvægum störfum, flest í gegnum verkefnið „Margar hendur vinna létt verk“.

Í Blöndustöð hafa 29 sumarstarfsmenn unnið í sumar ásamt einum verkstjóra og einum aðstoðarverkstjóra. Verkefnin hafa verið margvísleg og ber þar helst að nefna öflugt starf við landgræðslu en hóparnir plöntuðu 2.100 stórum trjáplöntum á Blöndusvæðinu ásamt 20.000 plöntum í Brimnesskógum og Gunnfríðarskógum.

Hópurinn hefur einnig unnið margvísleg störf í gegnum verkefnið „Margar hendur vinna létt verk“ en þar ber helst að nefna aðstoð í árlegum sumarbúðum Dropans fyrir sykursjúk börn á Löngumýri ásamt aðstoð við sumarbúðir Rauða Kross Íslands fyrir fatlaða einstaklinga. Hópurinn hefur aðstoðað við slátt í kirkjugörðum og umhirðu í gólfklúbbnum Ós ásamt því að vinna ýmis störf fyrir Húnavatnshrepp s.s. grasslátt, þrif, hirðingu beða, málun og annað viðhald.

Við Kröflustöð og Laxárstöð störfuðu 18 ungmenni og tveir verkstjórar í sumar en hóparnir unnu meðal annars að eyðingu lúpínu og skógarkerfils og aðstoðuðu við viðhald á gönguleiðum. Hóparnir sáu um slátt og hirðingu á Krossdalsvelli á gólfvellinum í Mývatnssveit ásamt því að lagfæra rask og fegra svæðið á Þeistareykjum. Ungmennin unnu einnig tilfallandi verkefni í tengslum við ársskoðun og árlegu viðhaldi vélbúnaðar í Kröflustöð ásamt því að aðstoða við endurnýjun á aðrennslispípu og vélbúnaði Laxár 2.

Í Fljótsdalsstöð störfuðu 18 ungmenni ásamt tveimur verkstjórum en auk hefðbundinna sumarstarfa hefur hópurinn einbeitt sér að umhverfisfegrun á áhrifasvæði Kárahnjúkavirkjunar. Hópurinn hefur unnið fjöldamörg verkefni í gegnum „Margar hendur vinna létt verk“ og má þar helst nefna uppgræðsluverkefni með Landbótasjóð Norður-Héraðs í Jökuldal og á Jökuldalsheiði en það verkefni hefur skilað miklum árangri. Hópurinn gróðursetti um 6.000 trjáplöntur á Borg í Skriðudal ásamt 50 stærri plöntum við Fljótsdalsstöð. Ungmennin aðstoðuðu eins við undirbúning unglingalandsmóts sem haldið var á Egilsstöðum um verslunarmannahelgina auk þess að aðstoða við gestamóttöku Landsvirkjunar í Végarði.

Í Búrfellsstöð störfuðu 34 ungmenni í sumar. Hópurinn vann mikið og þarft verk við að þrífa gosösku af öllum stöðvum og útihúsum á Þjórsárssvæðinu ásamt því að sinna landgræðslu af krafti. Hópurinn gróðursett um 64.800 birkiplöntur í sumar, 48.000 í Búrfellsskóg og 16.800 á vegum Hekluskóga en þær plöntur voru gróðursettar víðsvegar um Þjórsárdalinn. Hópur ungmenna frá Búrfellsstöð vann einnig við fornbæinn Stöng í Þjórsárdal og málaði þar yfirbyggingu rústanna, lagði þökur og lagfærði göngustíga.

Við Sogsstöðvar hafa 26 ungmenni unnið í sumar en hæst ber að nefna gróðursetningu á yfir 1.000 plöntum við Ljósafoss og 2.700 plöntum í Dráttahlíð fyrir ofan Steingrímsstöð. Einnig voru stungin niður rofabörð í nágrenni söðvanna og sáð í þau. Hópurinn vann um 70 dagsverk utan stöðvarinnar í gegnum „Margar hendur vinna létt verk“ en verkefni hópsins voru í Þjóðgarðinum á Þingvöllum, Golfvellinum á Kiðjabergi, og í Vindáshlíð.

Fréttasafn Prenta