Frétt

Viðhaldsvinna að hætti víkinga

12. september 2011

Þjóðveldisbærinn er endurgerð af fyrrum höfuðbýlinu Stöng í Þjórsárdal en bærinn lagðist í eyði í miklu Heklugosi árið 1104. Við byggingu bæjarins var byggt eins nákvæmlega og unnt var eftir bæjarrústunum á Stöng. Notaðar voru fornar verkaðferðir eftir megni við byggingu bæjarins og hann því einskonar safn sýnishorna um verkmennt.

Í sumar hefur staðið yfir rif og endurbygging á austurstafni skálans. Talið er að upprunaleg hleðsluaðferð bæjarins á Stöng hafi verið strengjatorf og var sú hleðsluaðferð notuð við byggingu skálans. Um 1.300 metrar af streng voru skornir í endurbyggingu veggjarins og einnig hefur verið lagt nýtt torf á þak skálans.

Endurbygging á veggjum búrs og kamars stendur nú yfir. Við byggingu bæjarins var ákveðið að nota klömbruhnaus í byggingu þeirra til að gefa gestum sýnishorn af því verklagi, en klömbruhnaus ásamt strengjatorf tíðkaðist hér á landi frá landsnámsöld. Búið er að skera um 800 klömbruhnausa til hleðslu veggjanna en einnig verður lagt nýtt torf á þak kvennastofu, búrs og kamars auk þess sem gerðar verða lagfæringar á kirkjunni við Þjóðveldisbæinn.

Þjóðveldisbærinn í Þjórsárdal er vinsæll viðkomustaður íslenskra jafnt sem erlendra ferðamanna en þar gefst gestum færi á að kynna sér húsakynni íslenskra höfðingja  á þjóðveldisöld og fræðast um hagi þeirra og daglegt líf.

Hússtjórn hefur umsjón með þjóðveldisbænum og ber ábyrgð á starfsemi í bænum, rekstri og fjármálum. Hússtjórn þjóðveldisbæjarins starfar samkvæmt máldaga sem gerður var á milli forsætisráðuneytisins,  Landsvirkjunar, Þjóðminjasafns Íslands og Skeiða- og Gnúpverjahrepps árið 2002

Verktaki viðgerðanna er Dugull ehf. en stjórnandi verksins er Víglundur Kristjánsson hleðslumaður.

Viðgerðir á skála

 

Fréttasafn Prenta