Frétt

Rannsóknarboranir á Þeistareykjum í sumar

15. september 2011

Í maí síðastliðnum var undirritaður samningur milli Þeistareykja ehf. og Jarðborana hf. um borun tveggja háhitahola á Þeistareykjum.  Borun á fyrri holunni er nú lokið og er það fyrsta háhitaholan sem boruð er á svæðinu í þrjú ár. Holan er á austursvæði Þeistareykja, stefnuboruð um 2500 metra undir Ketilfjall þar sem megin hitauppstreymi svæðisins er talið vera.  Tafir urðu á verkinu í fyrstu áföngum vegna óvenju hás hita og þrýstings en þegar á leið gekk verkið vel. Nú er unnið að lokafrágangi holunnar en ótímabært er að spá fyrir um væntanlegan árangur fyrr en hún verður afkastamæld í nóvember næstkomandi.

Seinni holan verður boruð í jaðri vesturhluta Þeistareykja.  Vestursvæðið er minna þekkt og verður þetta fyrsta holan sem þar er boruð. Athyglisvert verður að sjá útkomu úr þessari fyrstu borholu á svæðinu. Holan hefur þegar verið forboruð niður á um 100 metra dýpi en bortæki Jarðborana mun flytjast á holuna á næstu vikum og búist er við verklokum í byrjun nóvember. 

 

Theistareykir-2011_1

Bor Jarðborana hf., Óðinn, á Þeistareykjum í sumar.

 

Fréttasafn Prenta