Frétt

Landsvirkjun og Þeistareykir ehf. undirrita samninga um ráðgjafar­þjónustu vegna fyrirhugaðra jarðhitavirkjana á Norðausturlandi

20. október 2011

Landsvirkjun og Þeistareykir ehf. undirrituðu í dag samninga við verkfræðistofurnar Mannvit hf. og Verkís hf um ráðgjafarþjónustu vegna fyrirhugaðra jarðhitavirkjana í Bjarnarflagi og á Þeistareykjum.

Samningarnir taka til hönnunar og gerð útboðsgagna auk endanlegrar hönnunar vegna fyrirhugaðra framkvæmda við allt að 90 MW virkjun í Bjarnarflagi og 90 MW virkjun á Þeistareykjum ásamt aðstoð við eftirlit með uppsetningu vél- og rafbúnaðar. 

Verkið var boðið út á evrópska efnahagssvæðinu og voru tilboð opnuð þann 9. ágúst síðastliðinn. Tvö tilboð bárust í verkið og voru þau opnuð í tveimur þrepum. Í fyrra þrepinu var opnaður sá hluti tilboðanna er hafði að geyma upplýsingar um hæfi bjóðanda. Í framhaldinu fór matsnefnd yfir tilboðin og lagði mat á hvort bjóðendur stæðust kröfur gerðar um hæfi. Niðurstaða matsnefndar var sú að tilboð Mannvits hf. og Verkís hf. taldist hafa mætt kröfum um hæfi. Í kjölfarið var verðtilboð Mannvits hf. og Verkís hf. opnað.

Heildarfjárhæð samninga hljóðar uppá rúma 2,9 milljarða króna að meðtöldum virðisaukaskatti eða 89% af kostnaðaráætlun.

undirritun_20_okt

Fulltrúar fyrirtækjanna við undirritun samningsins í dag.
Frá vinstri: Einar Mathiesen, stjórnarformaður Þeistareykja ehf., Sveinn I. Ólafsson framkvæmdastjóri Verkís hf., Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar og Eyjólfur Árni Rafnsson forstjóri Mannvits hf.

 

Framkvæmdir við Bjarnarflagsvirkjun hefjist sumarið 2012

Landsvirkjun og Þeistareykir ehf. tilkynntu í lok maí að félögin myndu hraða rannsóknum á jarðhitasvæðum Bjarnarflags og Þeistareykja um sumarið til að mæta aukinni eftirspurn orkukaupenda á svæðinu og á Landsvirkjun nú í viðræðum við fimm mögulega kaupendur að orku á svæðinu.

Samhliða undirbúningi framkvæmda er unnið að leyfismálum vegna fyrirhugaðra virkjana og fyrir árslok 2011 hyggst Landsvirkjun sækja um virkjunarleyfi til Orkustofnunar fyrir 45 MW virkjun í Bjarnarflagi og Þeistareykir ehf. fyrir 90-100 MW virkjun á Þeistareykjum.

Miðað við að tilskilin leyfi verði veitt er gert ráð fyrir að framkvæmdir hefjist við fyrra þrep Bjarnarflagsvirkjunar sumarið 2012 (45 MW) og að gangsetning fari fram í lok árs 2014. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist við Þeistareykjavirkjun seinni hluta árs 2012 og að fyrra þrep virkjunar (45 MW) verði gangsett um mitt ár 2015 en seinna þrepið (45 MW) á seinni hluta árs 2015. Framkvæmdaáætlunin leitast við að tryggja sjálfbærni viðkomandi jarðhitasvæða.

Mati á umhverfisáhrifum 90 MW virkjunar í Bjarnarflagi og 200 MW virkjunar á Þeistareykjum er lokið og búið er að afla gufu fyrir 45 MW á hvorum stað.

 

Kostnaður við rannsóknir nemur um 12 milljörðum

Landsvirkjun og Þeistareykir ehf. hafa á síðustu  tíu árum varið um 12 milljörðum króna í rannsóknir á jarðhitasvæðunum á Þeistareykjum, Kröflu og í Bjarnarflagi á Norðausturlandi og byggt upp þekkingargrunn vegna undirbúnings jarðgufuvirkjana þar. Markmið rannsóknanna er að meta orkugetu og rannsaka vinnslueiginleika svæðanna og mögulega nýtingu í áfangaskiptri uppbyggingu.

 

 

Fréttasafn Prenta