Frétt

Yfirlýsing vegna umfjöllunar um Norðlingaölduveitu

8. nóvember 2002

I. Ásökunum vísað á bug – fundur með iðnaðarnefnd Alþingis
Landsvirkjun vísar á bug ásökunum sem komið hafa fram um að óeðlileg áhrif hafi verið höfð á vísindamenn og niðurstöður þeirra affluttar eða falsaðar við mat á umhverfisáhrifum Norðlingaölduveitu. Forstjóri fyrirtækisins hefur óskað eftir fundi með iðnaðarnefnd Alþingis til þess að kynna nefndinni afstöðu fyrirtækisins til ásakana um þetta efni sem bornar hafa verið á Landsvirkjun í fjölmiðlum undanfarna daga. Sá fundur verður haldinn nk. mánudag.

II. Aðdróttanir þriggja vísindamanna
Þrír prófessorar við Háskóla Íslands, Þóra Ellen Þórhallsdóttir, Arnþór Garðarsson og Gísli Már Gíslason hafa í fjölmiðlum ýmist gefið í skyn eða lýst yfir að Landsvirkjun hafi beitt óeðlilegum vinnubrögðum við úrvinnslu á sérfræðirannsóknum þeirra og annarra í matsvinnunni, m.a. með því að beita vísindamenn þrýstingi eða þvingunum og velja með óeðlilegum hætti úr niðurstöðum sérfræðirannsókna þeirra við matsvinnuna. Þau eru í hópi um 20 sérfræðinga sem komu að yfirlestri einstakra kafla matsskýrslunnar. Að auki hafa tugir vísindamanna komið að þeim rannsóknum sem matsskýrslan byggist á. Í þessum hópi eru helstu vísindamenn þjóðarinnar á fjölmörgum sviðum.

Um ummæli þeirra þremenninga vill Landsvirkjun segja eftirfarandi:

  1. Afstaða þeirra og annarra vísindamanna til verndunar Þjórsárvera, eða orku- og umhverfismála almennt, er Landsvirkjun óviðkomandi. Fyrirtækið hefur aldrei valið vísindamenn til starfa eða metið niðurstöður þeirra eftir því hver sú afstaða er.
  2. Landsvirkjun hefur aldrei hundsað, leynt eða afbakað niðurstöður sem fram koma í sérfræðiskýrslum vísindamanna.
  3. Landsvirkjun sem framkvæmdaraðili og ráðgjafar hennar við mat á umhverfisáhrifum framkvæmda eins og Norðlingaölduveitu eða Kárahnjúkavirkjunar hafa samkvæmt lögum rétt til að leggja sínar áherslur í matskýrslu vegna framkvæmdarinnar enda eru þeir ábyrgir fyrir matsskýrslunni. Við matsvinnuna hefur Landsvirkjun það fyrir reglu að þegar vitnað er í niðurstöður vísindamanna í sérfræðiskýrslum eru tilvitnanirnar bornar undir þá og afstaða tekin til þeirra athugasemda sem þeir kunna að gera á röklegum og faglegum grundvelli.
  4. Ábyrgðin á matsskýrslunni er Landsvirkjunar og séu viðkomandi vísindamenn ekki sáttir við framsetninguna þegar upp er staðið geta þeir vakið athygli Skipulagsstofnunar á því. Þóra Ellen Þórhallsdóttir skilaði ein þremenninganna athugasemdum um matsskýrsluna til Skipulagsstofnunar og svaraði framkvæmdaraðili athugasemdum hennar með fullnægjandi hætti að mati Skipulagsstofnunar eins og lesa má í úrskurði hennar. Enginn þremenninganna kærði úrskurð Skipulagsstofnunar til ráðherra.

Landsvirkjun skorar á þremenningana að draga ummæli sín til baka en finna þeim stað ella.

III. Þáttur dr. Ragnhildar Sigurðardóttur

Dr. Ragnhildur Sigurðardóttir, sem áður starfaði fyrir VSÓ ráðgjöf við gerð matsskýrslu Landsvirkjunar um Norðlingaölduveitu, hefur komið fram opinberlega og lýst því að verk hennar hafi verið afflutt. Undanfarna mánuði hefur staðið deila milli hennar og VSÓ ráðgjafar um starfslok hennar og eðli þeirra starfa sem hún vann fyrir VSÓ. Sú deila er Landsvirkjun óviðkomandi. Ragnhildur telur að vinna sín hafi falist í sjálfstæðum vísindarannsóknum en VSÓ og Landsvirkjun telja störf hennar hafa snúist um samantekt á vísindarannsóknum annarra við gerð matsskýrslunnar. Framsetning efnis í skýrslunni er á ábyrgð Landsvirkjunar og ráðgjafa hennar eins og áður var vikið að og því hefur Landsvirkjun rétt til að ritstýra því efni. Skrif Ragnhildar um þetta efni fóru til Skipulagsstofnunar þegar stofnunin bað um þau að gefnu tilefni og féllst stofnunin á þá afstöðu VSÓ ráðgjafar að skrif þessi teldust vinnugögn og væru sem slík ekki hluti grunngagna sem matskýrslan byggist á.

Ragnhildur lýsti því einnig í fjölmiðlum hvernig ónafngreindur verkfræðingur hjá Landsvirkjun hefði beitt hana óeðlilegum þrýstingi á fyrsta verkfundi VSÓ og Landsvirkjunar sem hún sótti. Landsvirkjun hefur óskað eftir því við Ragnhildi að hún segi hver þessi einstaklingur er og þangað til hún gerir það getur fyrirtækið einungis upplýst að enginn verkfræðinga Landsvirkjunar kannast við að hafa beitt Ragnhildi þrýstingi.

IV. Öll frumgögn eru opinber
Sá misskilningur þáttarstjórnenda og blaðamanns í þættinum “Ísland í bítið” kom ítrekað fram undanfarna daga að ýmis gögn hafi ekki legið fyrir við umfjöllun Skipulagsstofnunar um Norðlingaölduveitu. Af því tilefni bendir Landsvirkjun á að við mat á umhverfisáhrifum fá Skipulagsstofnun, sérfræðingar á hennar vegum og sérfræðistofnanir ríkisins öll gögn, þar með talið frumskýrslur allra sérfræðinganna. Almenningur sem þess óskar getur kynnt sér allar þessar sömu frumskýrslur. Sjálf matsskýrslan er samantekt, einkum ætluð almenningi og hún á þess vegna að vera aðgengileg, á skiljanlegu máli, ekki of fræðileg og alls ekki of löng. Ef einhverra hluta vegna reynast vera aðrar áherslur í samantekt framkvæmdaraðila og ráðgjafa hans en í einhverjum skýrslum sérfræðinga, þá á það ekki að koma að sök, því sérfræðingar á vegum Skipulagsstofnunar og umsagnaraðila leggja óháð mat á hlutina byggt á frumgögnunum. Það leiðir af sjálfu sér að framkvæmdaraðili kemst ekki upp með neinar falsanir, en áherslumunur getur verið eðlilegur.

Loks minnir Landsvirkjun á að eftir vandaða lögformlega meðferð í mati á umhverfisáhrifum hefur Skipulagsstofnun skilað skýrri niðurstöðu og hún staðfestir álit Landsvirkjunar sem fram kemur í matsskýrslu fyrirtækisins að Norðlingaölduveita valdi ekki umtalsverðum umhverfisáhrifum og að Þjórsárver haldi náttúruverndargildi sínu þótt veitan verði byggð.

Reykjavík, 8. nóv. 2002

Viðhengi:
Hvers vegna Norðlingaölduveita?

 

Fréttasafn Prenta