Frétt

Landsvirkjun tekur þátt í alþjóðlegri ráðstefnu í Rússlandi

26. október 2011

 Ráðstefnan International Energy Week var haldin í Moskvu dagana 24.-25. október en á henni voru saman komnir margir af helstu áhrifamönnum Evrópu og Rússlands á sviði orkumála.  Á ráðstefnunni var haldið málþing um nýtingu jarðvarma en þar kynnti Landsvirkjun starfsemi sína sem og Íslenska djúpborunarverkefnið.

Bjarni Pálsson, deildarstjóri virkjunardeildar Landsvirkjunar: 

Viðtökurnar hér úti hafa verið mjög góðar og við höfum fengið töluverða athygli. Þetta er stór ráðstefna sem fjallar um alla helstu þætti er varða orkumál Rússa, svo sem orkusparnað, gas, olíu og kjarnorku en einnig var mikil áhersla á endurnýjanlega orku, bæði vatnsafl og jarðvarma. Rússar eiga mikið af jarðvarmaauðlindum en eru skammt á veg komnir með nýtingu og því eru margir mjög áhugasamir um þátttöku okkar Íslendinga.


Málþingið sátu fulltrúar frá Landsvirkjun, Reykjavík Geothermal, Orkustofnun og Nýsköpunarmiðstöð Íslands, auk fulltrúa úr stjórnsýslunni en iðnaðarráðherra, Katrín Júlíusdóttir, flutti opnunarávarpið. Iðnaðarráðherra og Sergey Shmatko, orkuráðherra Rússlands, undirrituðu einnig samstarfssamning milli Íslands og Rússlands um jarðhitamál.

Fréttasafn Prenta