Frétt

Traust á Landsvirkjun eykst samkvæmt könnun MMR

27. október 2011

Samkvæmt nýlegri könnun MMR  á trausti almennings til helstu stofnana samfélagsins hefur traust almennings á Landsvirkjun aukist töluvert á milli ára.

Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar sögðust 34,2% bera frekar eða mikið traust til Landsvirkjunar samanborið við 24,7% í október 2010, en það er 39% aukning milli ára. Traust til Landsvirkjunar er því að nálgast það traust sem fyrirtækið hafði í desember 2008 og skipar sér þar með á bekk fárra stofnana sem njóta mikils trausts hjá fleirum en segjast bera lítið traust til þeirra.

Vantraust á fyrirtækinu hefur minnkað en 18,7% aðspurðra sögðust bera frekar eða mjög lítið traust til Landsvirkjunar miðað við 31,6% árið 2010.

Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar er Landsvirkjun ein þeirra fimm stofnanna samfélagsins sem landsmenn bera hvað mest traust til. Aðrar stofnanir í efstu sætum könnunarinnar eru Lögreglan, Háskóli Íslands, Ríkisútvarpið og Háskólinn í Reykjavík.

 

Traust á Landsvirkjun hefur aukist


Hægt er að kynna sér niðurstöður könnunarinnar frekar á vef MMR www.mmr.is

Fréttasafn Prenta