Frétt

Landsvirkjun tekur þátt í námskeiði um sjálfbærnivísa vatnsaflsvirkjana

3. nóvember 2011

Námskeið til að kynna matslykilinn og notkun hans stendur nú yfir á Íslandi. Á því er einnig boðið upp á þjálfun fyrir aðila sem hafa áhuga á að vera leiðandi í notkun hans. Um er að ræða annað námskeiðið sem haldið er í heiminum um þetta efni. Markmiðið er að fá þjóðir heims til að skuldbinda sig til að nota matslykilinn og stuðla þannig að sjálfbærni á heimsvísu. Námskeiðinu er stýrt af alþjóðlegum sérfræðingum, meðal annars Dr. Helen Locher verkefnisstjóra matslykilsins, en námskeiðið sitja starfsmenn Landsvirkjunar,  fulltrúar Skipulagsstofnunar, Umhverfisstofnunar, Sambands íslenskra sveitarfélaga,  Háskóla Íslands, Landverndar og   verkfræðistofa.

Breið þátttaka þjóðríkja og félagasamtaka við gerð matslykilsins
Vatnsafl er stærsti endurnýjanlegi orkugjafinn til raforkuvinnslu í heiminum. Mikið vatnsafl er óbeislað í heiminum og getur það gegnt afar þýðingarmiklu hlutverki við að draga úr notkun mengandi orkugjafa svo sem kola og olíu til raforkuvinnslu og við að tryggja íbúum þróunarlanda aðgang að rafmagni. Mikilvægt er að virkjunum verði hagað á þann hátt að nýting auðlindarinnar verði sjálfbær en þróun matslykilsins er þar mikilvægt skref í rétta átt. Unnið hefur verið að matslyklinum frá árinu 2008. Að þróun hans hafa komið þjóðríki, bankar, fjármálastofnanir, frjáls félagasamtök og Alþjóða vatnsorkusamtökin IHA sem jafnframt hefur stýrt vinnunni.  Meðal aðilanna eru Oxfam, The Nature Concervancy, World Wide Fund for Nature (WWF), Transparency International, Ísland, Noregur, Kína, Sambía og Alþjóðabankinn.

Matslykillinn byggir á stöðlum í yfir 20 flokkum sjálfbærni og beita má honum bæði á virkjunarhugmyndir á fyrstu stigum, við hönnun og framkvæmdir virkjana og loks á virkjanir í rekstri.  Með notkun hans er því bæði hægt að meta sjálfbærni starfandi virkjana og sjálfbærni verkefni sem eru í þróun. Matslykillinn kannar margvísleg efnisatriði og gerir öllum hagsmunaaðilum kleift að tala sama tungumál hvað viðkemur sjálfbærni auðlindarinnar.

Næsta vor fer fram úttekt á vegum sömu aðila samkvæmt alþjóðlegum viðmiðunum og er ætlunin að nýta þá matslykilinn til að taka út Hvammsvirkjun. Með þessu námskeiði og úttektinni  verður lagður grunnur að þekkingu varðandi notkun lykilsins. Landsvirkjun áformar að beita matslyklinum á virkjanir, allt frá fyrstu stigum undirbúnings til virkjana sem fyrirtækið hefur rekið um áratuga skeið. Þess er vænst að niðurstöðurnar leiði í senn til betri undirbúnings og framkvæmda sem og aukinnar sjálfbærni virkjana í rekstri.

Fréttasafn Prenta