Frétt

Fundur Landsvirkjunar með iðnaðarnefnd Alþingis

11. nóvember 2002

Nefndinni var kynnt matsvinnan til þess að hreinsa Landsvirkjun af aðdróttunum um óheiðarleg vinnubrögð. Á fundinum skýrðu fulltrúar Landsvirkjunar og VSÓ ráðgjafar sín mál og sýndu fram á að matið á umhverfisáhrifum Norðlingaölduveitu var unnið með heiðarlegum hætti og í fullu samræmi við lög.

Guðjón Jónsson, verkefnastjóri hjá VSÓ, lagði fram gögn sem lýsa nákvæmlega samskiptum VSÓ við Þóru Ellen Þórhallsdóttur og Gísla Má Gíslason. Þau hafa bæði gefið til kynna að óeðlilega hafi verið farið með niðurstöður vísindamanna í matsvinnunni. Í framlögðum gögnum VSÓ kemur fram í hverju ágreiningur Þóru Ellenar og Gísla við Landsvirkjun og VSÓ felst og sýnt er fram á að framsetningin í matsskýrslunni er fullkomlega eðlileg. Jafnframt gerði Guðjón grein fyrir samskiptum VSÓ við dr. Ragnhildi Sigurðardóttur, en það mál er Landsvirkjun óviðkomandi. VSÓ ráðgjöf mun gera þessar upplýsingar um viðskiptin við vísindamennina opinber.

Það er ánægjulegt að Arnþór Garðarsson, prófessor, hefur tekið af öll tvímæli í opinberri yfirlýsingu að hann hafi aldrei haldið því fram að Landsvirkjun hafi haft óeðlileg áhrif á vísindamenn og brenglað eða falsað niðurstöður þeirra við matsvinnuna.

Þá kom fram á fundinum að dr. Ragnhildur Sigurðardóttir vill ekki nafngreina neinn verkfræðing Landsvirkjunar sem á að hafa beitt hana óeðlilegum þrýstingi. Ekki er hægt að skilja það öðru vísi en svo að opinber yfirlýsing hennar í síðustu viku um slíkan þrýsting sé ómerk orðin.

Landsvirkjun vonar að með þessu hafi verið tekin af öll tvímæli um heiðarleika Landsvirkjunar og eðlileg vinnubrögð við gerð matsskýrslunnar um Norðlingaöldu.

Fréttatilkynning

Fréttasafn Prenta