Frétt

Arðsemi orkuvinnslu til umfjöllunar á vel heppnuðum haustfundi Landsvirkjunar 2011

16. nóvember 2011

Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar fjallaði um arðsemi Landsvirkjunar í fortíð, nútíð og framtíð. Hann sagði frá nýrri stefnu fyrirtækisins sem leggur áherslu á að hámarka arðsemi og dró fram hver áhrif nýrrar stefnu eru á rekstur fyrirtækisins.  Hörður kom einnig sérstaklega inn á arðsemi Kárahnjúkavirkjunar og rekstur hennar frá gangsetningu.  Hann sagði afkomu virkjunarinnar ófullnægjandi og vekja upp spurningar um það hvort auðlindin væri einskis virði. Hörður talaði um nauðsyn þess að hækka verð í raforkusamningum til framtíðar svo að fyrirtæki geti uppfyllt það markmið sitt að skila eigendum sínum sanngjörnum arði.

Magnús Bjarnason framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs flutti erindi um samkeppnishæfni í grænu hagkerfi. Þar sagði hann frá sölu á endurnýjanlegri orku á samkeppnishæfu verði í alþjóðlegu hagkerfi sem leggi síaukna áherslu á sjálfbærni og umhverfisvitund. Magnús sagði að aukin eftirspurn og verðmæti grænnar og endurnýjanlegrar orku hefði ekki endurspeglast í raforkuverði á Íslandi. Magnús sagði Landsvirkjun bjóða samkeppnishæfustu kjör í Evrópu sem byggði á lágu verði, 100% hreinni orku og öruggri afhendingu. Nýjir viðskiptavinir svo sem gagnaver, geti því nýtt sér afar samkeppnishæfar aðstæður á Íslandi. Magnús kvað orkumarkaðinn geta tengst Evrópumarkaði enn frekar með lagningu sæstrengs sem nú sé fjárhagslega og tæknilega framkvæmanlegur.

 

Hordur Arnason     Ragna Arnadottir

 

Nýtt skref tekið í rannsóknum á vindorku

Óli Grétar Blöndal Sveinsson framkvæmdastjóri þróunarsviðs kynnti verkefni Landsvirkjunar í rannsóknum, þróun og nýsköpun með sérstaka áherslu á möguleika raforkuvinnslu með vindorku á Íslandi.  Niðurstöður rannsókna sýni að aðstæður á Íslandi fyrir vindorkubúskap þyki góðar en Óli Grétar sagði að Landsvirkjun hyggðist hefja nýtt rannsóknarverkefni með byggingu tveggja vindmylla við Búrfell á árinu 2012. Óli Grétar kynnti einnig þá virkjanakosti Landsvirkjunar sem til umfjöllunar eru í drögum að þingsályktun um rammaáætlun,  möguleika til aukinnar nýtingar í núverandi virkjunum ásamt tækifærum og áskorunum tengdum lagningu sæstrengs.

Ragna Sara Jónsdóttir, yfirmaður samskiptasviðs, kynnti nýja stefnu Landsvirkjunar um samfélagslega ábyrgð. Ragna Sara sagði samfélagslega ábyrgð fyrirtækisins vera grundvöll þess að Landsvirkjun verði leiðandi í orkuvinnslu á sviði endurnýjanlegra orkugjafa. Hún kynnti hvað telst vera samfélagsleg ábyrgð Landsvirkjunar en það er að skapa arð, fara vel með auðlindir og umhverfi og stuðla að því að þekking og jákvæð áhrif af starfsemi fyrirtækisins skili sér til samfélagsins. Ragna Sara sagði að stefnu sinni leitist Landsvirkjun við að sýna ábyrgð í sínum stafsháttum og hafa áhrif á virðiskeðjuna í kringum sig. 

Ragna Árnadóttir skrifstofustjóri Landsvirkjunar stýrði fundinum og sagði að markmið opinna funda Landsvirkjunar væri að stuðla að gagnsærri og faglegri umræðu um málefni tengd starfsemi fyrirtækisins. Sem liður í þeirri viðleitni væri fundurinn einnig sendur beint út á heimasíðu Landsvirkjunar.

Kynningar og upptökur af fundi má einnig finna á heimasíðu Landsvirkjunar

 

Magnus Bjarnason     Oli Gretar Blondal Sveinsson 

 

Ragna Sara Jonsdottir 

Fréttasafn Prenta