Frétt

Landsvirkjun styður athafnasemi og nýsköpun í orkugeiranum

17. nóvember 2011

Háskólinn í Reykjavík, Innovit og Landsvirkjun efndu til hádegisfundar í dag í tilefni af Alþjóðlegu Athafnavikunni á Íslandi. Yfirskrift fundarins var Nýsköpun í orkugeiranum - tækifæri í jarðvarma en sá mikli kraftur sem býr í hita jarðar er mikið tækifæri til framtíðar fyrir Íslendinga. 123 þjóðir í sex heimsálfum sameinast í Alþjóðlegri athafnaviku með það að markmiði að hvetja fólk til að tileinka sér nýsköpun, athafnasemi og frumkvöðlahugsun.   


Framtíð í frumkröftum jarðar
Óli Grétar Blöndal Sveinsson kynnti starfsemi og framtíðaráform Landsvirkjunar en fyrirtækið stefnir að því að vera leiðandi á heimsvísu á sviði endurnýjanlegrar orku frá jarðvarma. Næstu jarðvarmaverkefni fyrirtækisins eru á Þeistareykjum og í Bjarnarflagi en einnig er horft til stækkunnar Kröfluvirkjunar. Óli Grétar sagði Landsvirkjun leggja mikla áherslu á rannsóknir og þróun en fyrirtækið vinnur að margvíslegum verkefnum í samstarfi við bæði innlenda og erlenda aðila. Af samstarfsverkefnum fyrirtækisins má nefna Djúpborunarverkefnið eða Iceland  Deep Drilling Project, sem er alþjóðlegt langtímaverkefni. Verkefnið miðar að því að komast að hvort hægt sé að nýta orku úr dýpri og heitari borholum en áður þekkist. Mögulegur ábati verkefnisins er sá að hægt væri að fá allt að tíu sinnum meiri orku en úr hefðbundinni borholu. Með því eykst hagkvæmni í vinnslu jarðhita auk þess sem líftími jarðhitasvæða getur lengst og jarðrask fyrir hverja framleidda orkueiningu minnkar. Mögulegt er að yfirfæra þessa þekkingu á mörg önnur jarðhitasvæði bæði á Íslandi og um heim allan.

Óli Grétar vakti athygli á orkurannsóknarsjóði Landsvirkjunar en þar eru veittir árlegir styrkir til námsmanna og rannsóknarverkefna með það að markmiði að auka áhuga vísindamanna og háskólasamfélagsins á umhverfis- og orkumálum og hvetja háskólanema til starfsframa á því sviði. Umsóknarfrestur fyrir næstu úthlutun er til 9. janúar 2012.

Oli-Gretar-HR

Óli Grétar Blöndal Sveinsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Landsvirkjunar

 

Nýting yfirhitaðrar jarðgufu
Steindór Hjartarsson, meistaranemi hjá REYST hjá tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík tók næstur til máls og kynnti lokaverkefni sitt. Verkefni Steindórs fjallar um hvernig hægt sé að nýta yfirhitaða jarðgufu en hann byggði módel og tölvulíkön af því hvernig mismunandi hreinsiaðferðir virka. Djúpborunarholan var notuð sem dæmi en sú hola er mjög heit, orkumikil og inniheldur mikið af efnum í gufunni svo sem HCl, brennistein og kísil en hitinn og efnin gera það mjög erfitt að hafa stjórn á holunni.

Steindór kynnti ýmsar hreinsunaraðferðir til að stöðva tæringu af völdum hita og efna í borholunni svo sem blauthreinsun, þurrhreinsun og svokallaðan „binary hring“ og setti í módel og tölvulíkan sem hann hannaði. Hugmyndin með verkefninu er að framtíðarákvarðanir við hreinsun borhola geti verið byggðar á þessum niðurstöðum en módelið sýnir hversu áhrifaríkar þessar mismunandi hreinsiaðferðir eru.

Vandamáli breytt í auðlind
Dr. Arnþór Ævarsson, framkvæmdarstjóri Prókatín, kynnti starfsemi fyrirtækisins en starfsemi Prókatíns snýst um að nýta gastegundir sem finnast í jarðgufu svo sem brennisteinsvetni, vetni og koldíoxíð en þessar gastegundir eru óæskilegur fylgifiskur jarðvarmavirkjana. Starfsmenn Prókatín sjá hinsvegar þessi gös fyrir sér sem auðlind og nota líftækni til að ræka örverur og þörunga en þær eru notaðar til að framleiða verðmæt efni. Örverurnar framleiða þannig fastan brennistein og einfrumuprótín en í báðum afurðum felast markaðstækifæri að sögn Arnþórs. Lífrænt framleiddan fastan brennisteinn megi til dæmis nota við ræktun plantna en skortur er á brennistein í lífrænni ræktun. Einfrumuprótín er hægt að nota í framleiðslu á prótínmjöli í fóður en samsetning slíks prótíns er svipuð og í fiskimjöli og hefur verið samþykkt sem fóður innan ESB.  Framleiðsla prótíns og fasts brennisteins má þannig nota til að hindra losun óæskilegra efna út í umhverfið.  

Í kjölfar hádegisfundarins fór fram vinnustofa undir yfirskriftinni Tækniþróun í jarðvarma –tækifæri á heimsvísu en þar leiddu saman hesta sína helstu sérfræðingar á sviði jarðvarma á Íslandi. Rædd voru tækifæri sem búa í tækniþróun innan þessa geira en í dag er tækjabúnaður keyptur af olíugeiranum. Ljóst þykir því að mikil tækifæri búa í þróun á þessu sviði bæði innan lands og utan.

 

 

Fréttasafn Prenta