Frétt

Stefnt að því að reisa vindrafstöðvar í rannsóknarskyni árið 2012

18. nóvember 2011

Þetta var tilkynnt á haustfundi Landsvirkjunar sem haldinn var í vikunni, en Óli Grétar Blöndal Sveinsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Landsvirkjunar gerði grein fyrir stöðu vindorkurannsókna Landsvirkjunar.

Uppsetning vindrafstöðva er liður í rannsóknar- og þróunarverkefni Landsvirkjunar á hagkvæmni vindorku á Íslandi. Fjölmörg svæði á Íslandi hafa komið vel út úr veðurfarsrannsóknum hvað vindstyrk varðar. Landsvirkjun skoðar nú að reisa vindrafstöðvar á vindasömum svæðum sem staðsett eru nálægt nauðsynlegum innviðum, eins og  flutningskerfi raforku og þjónustu.

Um þessar mundir stendur yfir athugun á því hvort mögulegt sé að reisa tvær vindrafstöðvar, samtals með uppsett afl 2 MW á svæði sem stendur á milli Búrfellsvirkjunar og Sultartangavirkjunar. Fáist tilskilin leyfi vegna verkefnisins er stefnt að því að vindmyllurnar, sem eru allt að 50 metrar á hæð, verði settar upp seinni hluta árs 2012.

vindmyllur-burfell

Myndin sýnir mögulega staðsetningu vindmylla við Búrfell.

Fréttasafn Prenta