Frétt

Yfirlýsing frá verkfræðingum hjá Landsvirkjun

20. nóvember 2002

Dr. Ragnhildur Sigurðardóttir hefur nýlega í viðtali sem sýnt var í þættinum „Ísland í bítið" lýst því hvernig framkvæmdaraðili, þ.e.a.s. Landsvirkjun eða ónafngreindur verkfræðingur hjá fyrirtækinu hafi beitt hana óeðlilegum þrýstingi á fyrsta verkfundi sem hún sótti um mat á umhverfisáhrifum Norðlingaölduveitu.

Þessi ummæli og önnur er hníga í sömu átt og höfð eru eftir þeim Þóru Ellen Þórhallsdóttur og Gísla Má Gíslasyni, prófessorum við Háskóla Íslands, eru til þess fallin að kasta rýrð á störf okkar sem undir þessa yfirlýsingu ritum. Dr. Ragnhildur segir að hún sé að verja sinn vísindalega heiður, en mikilvægt er að hún og aðrir geri sér grein fyrir að allir hafa starfsheiður, einnig verkfræðingar sem starfa reyndar skv. sérstökum siðareglum Verkfræðingafélags Íslands.

Við undirrituð komum öll að einhverju leyti að yfirlestri og yfirferð skýrslu um mat á umhverfisáhrifum Norðlingaölduveitu. Jafnframt höfum við áratuga starfsreynslu bæði á Íslandi og erlendis, m.a. við undirbúning og byggingu virkjana, og höfum í starfi okkar fylgt í hvívetna þeim lögum og reglum, skráðum jafnt sem óskráðum, sem um starf okkar gilda.

Við höfum átt ágætt samstarf við tugi vísindamanna og aðra sérfræðinga og aldrei reynt að hafa óeðlileg áhrif á niðurstöður þeirra. Hins vegar teljum við það faglega skyldu okkar að leita eftir skýringum og rökstuðningi fyrir niðurstöðum sérfræðinga, ekki síst þegar þær eru notaðar til að leggja mat á framkvæmdir á vegum Landsvirkjunar.

Vissulega eru sumar framkvæmdir Landsvirkjunar umdeildar og ekki allir á eitt sáttir. Það veitir hins vegar dr. Ragnhildi ekki leyfi til að koma fram með órökstuddar ásakanir á hendur starfsmönnum fyrirtækisins.

Dr. Ragnhildur hefur hingað til ekki viljað nafngreina verkfræðinginn sem hún vísar til í viðtalinu og segir í nýlegu blaðaviðtali að það sé raunar aukaatriði í málinu. Að okkar áliti er það ekkert aukaatriði að vera sakaður um óeðlileg vinnubrögð, en ekki getur verið átt við aðra en okkur fjögur. Við teljum okkar faglega heiður síst léttvægari en vísindalegan heiður hennar og vísum þessum ásökunum á bug.

Ragnheiður Ólafsdóttir
Agnar Olsen
Björn Stefánsson
Eysteinn Hafberg

Fréttasafn Prenta