Frétt

Landsvirkjun innleiðir nýja stefnu um samfélagslega ábyrgð

24. nóvember 2011

Tilkynnt var um stefnuna á haustfundi fyrirtækisins í síðustu viku, en það var Ragna Sara Jónsdóttir yfirmaður samskiptasviðs sem kynnti hana. 

Ný stefna Landsvirkjunar var unnin af þverfaglegum hópi innan fyrirtækisins sem skipaður var í janúar 2011. 

Markmið stefnunnar er að auka jákvæð áhrif fyrirtækisins á hagsmunaaðila og lágmarka neikvæð áhrif á umhverfi og samfélag. Þá er stefnan grundvöllur þess að fyrirtækið nái því markmiði sínu að verða leiðandi í orkuvinnslu á sviði endurnýjanlegra orkugjafa. Stefnan miðar að því að Landsvirkjun taki mið af efnahag, umhverfi og samfélagi í sínum rekstri

 

Stefna Landsvirkjunar um samfélagslega ábyrgð

Samfélagsleg ábyrgð Landsvirkjunar er að skapa arð, fara vel með auðlindir og umhverfi og stuðla að því að þekking og jákvæð áhrif af starfsemi fyrirtækisins skili sér til samfélagsins

Landsvirkjun tryggir að stefnumörkun um samfélagsábyrgð sé framfylgt með því að setja sér markmið og leggja áherslu á eftiralda þætti í starfsemi fyrirtækisins:

1. Landsvirkjun starfar eftir ábyrgum stjórnarháttum

Starfsemi Landsvirkjunar byggir á ábyrgum stjórnarháttum og starfsmenn fylgja siðareglum fyrirtækisins í störfum sínum.

2. Landsvirkjun leitast við að hafa áhrif á virðiskeðju sína

Landsvirkjun gerir kröfu til viðskiptavina og birgja um að þeir sýni ábyrga stjórnarhætti og taki mið af umhverfi og samfélagi í rekstri sínum.

3. Landsvirkjun keppist við að vera í fararbroddi á sviði umhverfismála

Það gerir Landsvirkjun með því að bera virðingu fyrir náttúrunni við val og mótun virkjanakosta, leggja áherslu á sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda, vinna samkvæmt viðurkenndum, alþjóðlegum starfsháttum og lágmarka umhverfisáhrif í starfsemi fyrirtækisins.

4. Landsvirkjun leggur sig fram um að starfa ávallt í góðu samstarfi við samfélagið

Landsvirkjun leggur áherslu á gott samstarf við samfélagið þar sem fyrirtækið starfar með því að tryggja gegnsæ vinnubrögð og stuðla að gagnvirku upplýsingaflæði, taka mið af hagsmunum samfélagsins og tryggja að samfélag og náttúra njóti góðs af starfsemi Landsvirkjunar.

5. Landsvirkjun leggur áherslu á að vera leiðandi í heilsu-, öryggis- og starfsmannamálum

Landsvirkjun vinnur eftir ábyrgri stefnu í öryggis- og starfsmannamálum sem eiga að tryggja vellíðan, öryggi og jafnrétti starfsfólks.

6. Landsvirkjun deilir þekkingu þar sem hún getur stuðlað að nýsköpun og þróun í atvinnulífi og samfélagi

Landsvirkjun leggur áherslur á fagleg vinnubrögð og nýskapandi lausnir sem geta nýst samfélaginu, en gætir þess þó að dreifing þekkingar skaði ekki samkeppnisstöðu fyrirtækisins.

 

Í kjölfar samþykktar stefnunnar hefst innleiðingarferli og setning mælanlegra markmiða.
Landsvirkjun mun upplýsa reglulega  um framvindu verkefnisins.  

 

 

Fréttasafn Prenta