Frétt

Umhverfisskýrsla Landsvirkjunar 2010 er komin út

7. desember 2011

Umhverfisskýrsla Landsvirkjunar 2010

Út er komin umhverfisskýrsla Landsvirkjunar fyrir árið 2010 en útgáfa umhverfisskýrslna er hluti af umhverfisstefnu fyrirtækisins. Umhverfisskýrslan fyrir árið 2010 er sú fimmta í röðinni og hefur að geyma tölulegar upplýsingar um umhverfismál fyrirtækisins á árinu ásamt þróun frá árinu 2008.

Landsvirkjun er með vottað umhverfisstjórnunarkerfi samkvæmt alþjóðastaðlinum ISO 14001 en fyrirtækið fékk vottunina árið 2006 fyrir raforkuvinnslu og árið 2009 fyrir fyrirtækið í heild. Landsvirkjun hefur því farið í gegnum ferli sem felur í sér stefnumótun á sviði umhverfismála og ítarlega skoðun á hvaða umhverfisáhrif starfsemi fyrirtækisins hefur. Fyrirtækið hefur mótað umhverfisstefnu, þýðingarmiklir umhverfisþættir hafa verið skilgreindir og hefur fyrirtækið sett sér markmið um hvernig draga megi úr umhverfisáhrifum starfseminnar.

Umhverfisskýrslan kemur nú út talsvert síðar en verið hefur sem skýrist af því að á árinu hefur verið unnið að endurbótum á verkferlum við gagnaöflum og aðferðum við úrvinnslu þeirra auk þess sem umfang skýrslunnar hefur verið aukið til muna. Landsvirkjun vinnur markvisst að því að vera opið og gegnsætt fyrirtæki og er kynning á stefnu og árangri fyrirtækisins mikilvæg. Landsvirkjun leitast með því við að stuðla að opinni og málefnalegri umræðu um það sem vel er gert og betur mætti fara í starfsemi fyrirtækisins

Skýrslan er prentuð í litlu upplagi en verður dreift rafrænt eftir því sem kostur er. Skýrsluna er hægt að nálgast hér: Umhverfisskýrsla Landsvirkjunar 2010

 

Raforkuvinnsla eykst

Raforkuvinnsla Landsvirkjunar nemur um 74% af heildarraforkuvinnslu á Íslandi en árið 2010 voru unnar 12.625 GWst sem er um 3% aukning frá fyrra ári. Aukning var bæði í vinnslu vatnsafls- og jarðvarmavirkjana en hlutfallsleg skipting orkunnar er 96% vatnsorka og 4% jarðvarmaorka og er það sambærilegt við fyrri ár.

Aukin djúpförgun

Til að draga úr umhverfisáhrifum vegna raforkuvinnslu með jarðvarma frá Kröflustöð hefur verið unnið að djúpförgun á skiljuvatni með niðurdælingu í jarðhitageyminn. Hlutfall djúpförgunar jókst um tæp 9% frá árinu 2009 og 57% frá árinu 2008.

Notkun dísilolíu dregst saman milli ára

Í starfsemi Landsvirkjunar er jarðefnaeldsneyti notað á bifreiðar, vélar og ýmis tæki auk þess sem olía er notuð til reksturs nokkurra lítilla dísilrafstöðva. Notkun dísilolíu hefur dregist saman um 34% frá árinu 2009 og um 12% miðað við árið 2008.

Landgræðsla og kolefnisbinding

Það land sem grætt hefur verið upp fyrir tilstilli Landsvirkjunar frá árinu 1968 til 2010 er um 140 km2 að flatarmáli. Binding koltvísýrings á landgræðslu- og skógræktarsvæðum Landsvirkjunar hefur verið áætluð gróflega um 22 þúsund tonn á ári. Um þessar mundir er unnið að fyrstu úttekt á raunbindingu á landgræðslusvæðum Landsvirkjunar og er von á niðurstöðum sumarið 2012 en þá fæst réttara mat á kolefnisbindingu fyrirtækisins.

Áhersla á endurvinnslu og endurnýtingu

Það er markmið Landsvirkjunar að auka endurvinnslu og endurnýtingu og þar með draga úr magni almenns óflokkaðs úrgangs sem fer til urðunar og brennslu. Magn almenns óflokkaðs úrgangs hefur dregist saman miðað við fyrri ár á öllum starfsstöðvum Landsvirkjunar utan Fljótsdalsstöðvar sem skýrist af sérstöku hreinsunarátaki á fyrrum framkvæmdarsvæði Kárahnjúkavirkjunar sem fram fór sumarið 2010. Hlutfallslega skiptingu úrgangs í starfsemi Landsvirkjunar árið 2010 eftir úrgangsflokkum má sjá af mynd að neðan. Þar sést að um 46% úrgangs fer til endurvinnslu og endurnýtingar og 14% eru spilliefni sem send eru til sérstaks förgunaraðila. Um 17% af úrgangi fellur í flokkinn almennur óflokkaður úrgangur sem fer til urðunar eða brennslu og 23% úrgangs er svokallaður óvirkur úrgangur sem fer til urðunar á þar til skilgreindum urðunarstöðum.

 endurvinnsla-og-endurnyting2

Losun gróðurhúsalofttegunda dregst lítillega saman

Losun gróðurhúsalofttegunda frá starfsemi Landsvirkjunar er að stærstum hluta vegna útstreymis frá jarðvarmavinnslu eða um 73% af losuninni og losun frá lónum vatnsaflsvirkjana sem nemur um 25% af losuninni. Þá vegur losun vegna brennslu eldsneytis, flugferða og förgunar úrgangs samtals um 2% af losun fyrirtækisins.

Losun gróðurhúsalofttegunda frá starfsemi Landsvirkjunar árið 2010 var tæp 61.300 tonn CO2­ígilda og hefur losunin dregist saman um 1% miðað við árið 2009. Sé tekið tillit til kolefnisbindingar er kolefnisspor Landsvirkjunar fyrir árið 2010 um 39.300 tonn CO2­ígilda. Losun gróðurhúsalofttegunda frá starfsemi Landsvirkjunar eru um 1,2% af heildarlosun Íslands á ári sé ekki tekið tillit til kolefnisbindingar.

Talsverður munur er á losun gróðurhúsalofttegunda frá orkugjöfum Landsvirkjunar, það er jarðvarma annars vegar og vatnsafli hins vegar. Losun gróðurhúsalofttegunda á hverja framleidda GWst fyrir jarðvarmavirkjun er um 86 tonn CO2­ígildi/GWst og um 1,4 tonn CO2-ígildi/GWst fyrir vatnsaflsvirkjun án tillits til kolefnisbindingar fyrirtækisins.

losun-grodurhusalofttegunda

 

Fréttasafn Prenta