Frétt

Mótmælastaða við skrifstofu Landsvirkjunar

20. nóvember 2002

Mótmæli við Háaleitisbraut 2002 hópurFulltrúar hópsins komu á framfæri mótmælaskjali sem Þorsteinn Hilmarsson, upplýsingafulltrúi og Ragnheiður Ólafsdóttir, umhverfisstjóri Landsvirkjunar veittu viðtöku.

,,Til Landsvirkjunar
frá áhugahópi um náttúru Íslands

20. nóvember 2002

Við viljum vernda ósnortin víðerni Íslands og virða friðlöndin í Þjórsárverum og Kringilsárrana.

Við höfnum Kárahnjúkavirkjun og Norðlingaölduveitu og viljum skoða minna umdeilda virkjanakosti ef raunveruleg þörf er fyrir þá.

Við viljum að hlúð sé að öðrum atvinnukostum en álframleiðslu þar sem stóriðjustefnan ógnar lífríki og landkostum og er fjárhagslega og félagslega varhugaverð.

Við mótmælum framkomu Landsvirkjunar í garð vísindamanna sem felst í að breyta samantekt á niðurstöðum án samþykkis þeirra."

Mótmæli við Háaleitisbraut 2002: Afhending skjalsVið sama tækifæri afhentu þau Þorsteinn Hilmarsson, upplýsingafulltrúi og Ragnheiður Ólafsdóttir, umhverfisstjóri mótmælendum ávarp.

,,Ágæti mótmælandi!

Við hjá Landsvirkjun gerum okkur grein fyrir að virkjunaráform á hálendi Íslands eru umdeild. Einmitt þess vegna er mikilvægt að opin og málefnalega umfjöllun eigi sér stað þar sem það sem menn vita best um áhrif og afleiðingar framkvæmda kemur til skoðunar. Við ákvörðun stjórnvalda um hvort leyfa skyldi Kárahnjúkavirkjun hafðir þú sem einstaklingur til dæmis a.m.k. í þrígang möguleika á að koma þínum sjónarmiðum á framfæri og um allar slíkar ábendingar var fjallað með málefnalegum hætti. Stjórnvöld komust að þeirri niðurstöðu að bygging Kárahnjúkavirkjunar sé heimil. Sú ákvörðun var í alla staði lýðræðisleg, málefnaleg og opin. Meðal annars fjallaði Alþingi um málið og lýstu 44 þingmenn sig fylgjandi framkvæmdinni en 9 voru á móti.

Vera kann að sumum þyki ákvörðun um hvort ráðast eigi í Kárahnjúkavirkjun ekki snúast um málsmeðfeðina heldur þá framtíðarsýn sem hafa skal að leiðarljósi við uppbyggingu í samfélaginu. Allt sem gert er hefur sínar afleiðingar fyrir framtíðina, líka að framkvæma ekki. Mikilvægt er að taka upplýsta ákvörðun á grundvelli bestu vitneskju á hverjum tíma. Okkur virðast margir andmælendur virkjunaráforma horfa eingöngu á staðbundin umhverfismál. Hnattræn umhverfisvandamál skipta líka máli fyrir framtíðina. Víðast hvar í heiminum veldur rafmagnsframleiðsla því að nokkur tonn af gróðurhúsalofti á íbúa fara út í andrúmsloftið árlega. Á Íslandi er þessi tala örfá kíló. Léttmálmurinn ál er mikilvægur í baráttunni gegn gróðurhúsavandanum. Álframleiðsla á Íslandi er eitt það áhrifaríkasta sem Íslendingar geta gert í baráttu jarðarbúa gegn gróðurhúsaáhrifum.

Norðlingaölduveita er enn í meðferð stjórnvalda og ekki er ljóst hvort hún verður heimiluð. Eðlilegt er að um hana sé fjallað af stjórnvöldum með þeim hætti sem þau nú gera. Þar hefur þú einnig haft möguleika á að koma að málinu í þrígang með þitt innlegg.

Ásakanir um óheiðarleika
Undanfarið hefur verið mikil og óvægin fjölmiðlaumfjöllun um vinnu Landsvirkjunar við mat á umhverfisáhrifum Norðlingaölduveitu. Nokkrir vísindamenn saka starfsmenn Landsvirkjunar og VSÓ Ráðgjafar um óheiðarleg vinnubrögð að þeir hafi beitt vísindamenn þrýstingi, breytt niðurstöðum, falsað staðreyndir og verið ,,pirruð”. Það er grundvallarmunur á að deila um málefni og að ásaka andstæðinga sína um óheiðarleika. Starfsmenn Landsvirkjunar vísa framkomnum ásökunum algjörlega á bug og telja þær ekki samboðnar þeim andstæðingum virkjunaráforma sem hafa þær í frammi."

 

Fréttasafn Prenta