Frétt

Arðsemi orkusölu til Alcoa Inc.

3. desember 2002

Nýlega birtu Náttúruverndarsamtök Íslands niðurstöður um arðsemi Kárahnjúkavirkjunar og koma þær ekki á óvart. Samtökin fengu Þorstein Siglaugsson til skrifa nýja skýrslu og er niðurstaðan sem fyrr að mikið tap verði af verkefninu m.v. forsendur skýrsluhöfundar. Greinargerðin ber þess nokkur merki að vera skrifuð fyrir Náttúruverndarsamtökin og er hún nú eitt helsta vopnið í viðamikilli herferð þeirra gegn Kárahnjúkavirkjun.

Græðir Landsvirkjun nóg?
Landsvirkjun á nú í viðræðum við Alcoa sem er einn stærsti, virtasti og elsti álframleiðandi í heimi. Skýrsluhöfundur gerir lítið úr þessari breyttu forsendu og lætur hjá líða að geta þess að orkusala til Alcoa Inc. er að sjálfsögðu öruggari en hún hefði verið til Reyðaráls hf. Þess í stað fýsir hann greinilega mjög að koma við ávöxtunarkröfu sem hæfir áhætturekstri sem á engan veginn við í þessu tilfelli.

Það er vert að vekja sérstaka athygli á því að hið stórfellda tap sem fram kemur í skýrslunni stafar ekki hvað síst af forsendum höfundar um ávöxtunarkröfu. Í ávöxtunarkröfunni er tekið tillit til vaxta af lánsfé og þeirrar kröfu sem eigendur gera um arðsemi eigin fjár. Lánsvextir Landsvirkjunar eru vel þekktir enda hefur fyrirtækið sérlega góða lánshæfiseinkunn. Þá reiknar Landsvirkjun með að raunávöxtun af eigin fé í Kárahnjúkavirkjun verði um 14% sem telja verður afar gott.

Skýrsluhöfundur telur að ávöxtunarkrafan eigi að vera enn hærri og notar það ásamt fleiru til að halda fram að tap verði á virkjuninni. Þetta er villandi framsetning. Í stað þess að ætla að tap verði á framkvæmdinni er hann að segja að Landsvirkjun hagnist ekki nóg. Þar er Landsvirkjun á öndverðum meiði.

Áliðnaður er nú hluti af hinu þróaða og þekkta atvinnulífi. Álver Alcan í Straumsvík hefur t.d. starfað í yfir 30 ár. Það var stækkað árið 1997 og væntingar eru um enn frekari stækkun á komandi árum. Bæði Búrfellsvirkjun og álverið eru nú að mestu afskrifuð en munu engu að síður skila eigendum sínum ríkulegum arði um ókomin ár.

Skýrsluhöfundur gerir tilraun til að skelfa lesendur með því að gera ráð fyrir að lánshæfi íslenska ríkisins muni lækka vegna Kárahnjúkavirkjunar. Staðreyndin er hins vegar sú að lánshæfi íslenska ríkisins var nýlega hækkað í Aaa sem er besta einkunn sem Moody's gefur. Þessa einkunn fékk ríkið þrátt fyrir að Moody's hefði allar upplýsingar um fyrirhugðar framkvæmdir. Þá kaus Moody's einnig að gefa Landsvirkjun sömu einkunn. Það er greinilegt að lánshæfisfyrirtækin eru á annarri skoðun en Náttúruverndarsamtök Íslands þegar kemur að arðsemi verkefnisins og mikilvægi þess fyrir íslenskt efnahagslíf.

Breyttar forsendur
Í skýrslunni er fullyrt að orkusala nú sé 20% lægri en fjárfestingarkostnaður aðeins 6% lægri“. Þetta er alrangt. Staðreyndin er sú að fjárfestingarkostnaður lækkar um allt að 20% á meðan orkusala lækkar minna. Verkefnið er því betra en ekki verra eins og fullyrt er. Höfundur skýrslunnar ber saman fjárfestingakostnað á mismunandi verðlagi og fær því ranga mynd af breytingu frá fyrri áætlunum. Landsvirkjun stendur við fyrri yfirlýsingar um að ekkert bendi til annars en að Kárahnjúkavirkjun sé mjög arðbært verkefni. Enn betri vísbendingar munu fást þar um á næstu dögum þegar tilboð verða opnuð í stóra verkhluta.

Reynsla Landsvirkjunar
Hingað til hafa ákvarðanir um virkjanaframkvæmdir verið teknar á grundvelli vandaðs og faglegs undirbúnings Landsvirkjunar og ráðgjafa hennar. Vinna við undirbúning Kárahnjúkavirkjunar er með sama hætti. Ef fyrirtækið ætlaði að tap yrði af virkjuninni yrði ekki af framkvæmdum. Á síðustu 6 árum hefur Landsvirkjun fjárfest fyrir um 50 milljarða króna og orkusala aukist um 60%. Íslendingar eiga nú eitt yngsta, fullkomnasta, umhverfisvænsta og öruggasta raforkukerfi í heimi og búa jafnframt við eitt lægsta raforkuverðið. Fjárhagsleg staða Landsvirkunar er góð og gæti fyrirtækið greitt niður allar skuldir á næstu 15 árum ef ekkert yrði virkjað. Þetta segir meira en mörg orð um arðsemi virkjanaframkvæmda. Hætt er við að lítið hefði orðið úr framkvæmdum á undanförnum árum og áratugum hefðu forsendur og aðferðafræði Náttúruverndarsamtaka Íslands verið höfð að leiðarljósi.

Helgar tilgangurinn meðalið?
Í ljósi umræðunnar og dýrrar auglýsingarherferðar hljóta að vakna nokkrar spurningar um stefnu Náttúruverndarsamtaka Íslands. Það má t.d. spyrja hvort samtökin hefðu lagt jafnmikla áherslu á að kynna umrædda arðsemisskýrslu ef niðurstaðan hefði verið jákvæð? Er hugsanlegt að samtökin hafi ákveðið niðurstöðuna fyrst og reiknað svo? Nú er það svo að allir eru sammála um augljósa arðsemi Norðlingaölduveitu. Ef arðsemin er samtökunum svo mikilvæg sjá þau sér fært að styðja þær framkvæmdir? Hvaða sjónarmið ráða ferðinni hjá Náttúruverndarsamtökum Íslands? Er það náttúruvernd eða arðsemi eða helgar tilgangurinn bara meðalið?

Fréttasafn Prenta