Frétt

155 ungmenni gróðursettu yfir 163.000 trjáplöntur

7. október 2014
Sumarvinnuhópur að störfum í Heiðmörk

155 ungmenni og 55 háskólanemar við störf

Ár hvert ræður Landsvirkjun ungmenni á aldrinum 16-20 ára ásamt háskólanemum til starfa víðs vegar um landið en í ár störfuðu 155 ungmenni og 55 háskólanemar hjá Landsvirkjun.

Ungmennin störfuðu við aflstöðvar og við verkefnið „Margar hendur vinna létt verk“. Í gegnum það verkefni gefst félagasamtökum, sveitafélögum og stofnunum kostur á að óska eftir vinnuafli sumarflokka Landsvirkjunar við verkefni sem skila sér í auknum umhverfisgæðum og betri aðstöðu til útivistar og ferðamennsku. Sumarhópar Landsvirkjunar hafa í ár unnið með fjöldamörgum aðilum að landgræðslu, fegrun og umhirðu um land allt.

Þeir 55 háskólastúdentar sem störfuðu hjá Landsvirkjun í sumar stunda flestir nám í verkfræði en einnig í lögfræði, listgreinum, viðskiptafræði, félagsfræði, sálfræði, tölvunarfræði, íþróttafræði og iðjuþjálfun. Verkefni þeirra eru fjölbreytt og lögð er áhersla á að verkefnin séu raunhæf og nýtist þeim í námi.

Höfuðborgarsvæðið

Á höfuðborgarsvæðinu störfuðu 43 ungmenni í umhverfishópnum ásamt þremur verkstjórum. Verkefni sumarsins voru fjölbreytt en öll verkefni þessa hóps koma í gegnum „Margar hendur vinna létt verk”. Er þar helst samstarf við Skógræktarfélag Reykjavíkur og Skógræktarfélag Hafnarfjarðar, en tveir 18 manna hópar hafa unnið í Heiðmörk og við Gróðrarstöðina Þöll við Hvaleyrarvatn.

Í Heiðmörk  og við Hvaleyrarvatn voru nýjir göngustígar lagðir, eldri göngustígar snyrtir og trjágróður grisjaður við þá. Útivistarsvæði voru heimsótt og þeim haldið snyrtilegum. Umfangsmesta verkefnið var þó gróðursetning og voru plöntur gróðursettar með plöntustaf í grýttar lúpínubreiður.

Svokallaður Flökkuhópur vann mörg verkefni í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Í samvinnu við  Skógræktarfélag Kjalarness var gróðursett í hlíðum Esjunnar. Einnig var unnið hreinsunarstarf í höggmyndagarði Ásmundarsafns. Þá  vann hópurinn að lagfæringu göngustíga og frágangi við skála hjá Golfklúbbi Vatnsleysustrandar. Flökkuhópurinn og hóparnir í Heiðmörk og Þöll hafa í sumar gróðursett hátt í 100.000 trjáplöntur, mest sitkagreni og birki. Viðhald eldri göngustíga og nýir sem lagðir voru, voru um 5.000 metrar.

Stöðvar Landsvirkjunar á landsbyggðinni

Sumarvinnuhópar á stöðvum Landsvirkjunar víðs vegar um landið sinna hefðbundnum viðhaldsstörfum ár hvert svo sem umhirðu á nágrenni stöðvanna, grasslætti, hirðingu beða, lagningu göngustíga og málningarvinnu.  Auk hinna hefðbundnu sumarstarfa sinntu ungmennin margvíslegum störfum, flest í gegnum verkefnið „Margar hendur vinna létt verk“.

Í Blöndustöð störfuðu 24 sumarstarfsmenn í sumar ásamt einum verkstjóra og tveimur aðstoðarverkstjórum. Verkefnin voru margvísleg og ber þar helst að nefna öflugt starf við landgræðslu en hóparnir plöntuðu um 7.000 trjáplöntum á Blöndusvæðinu ásamt um 20.000 plöntum í Brimnesskógum og Gunnfríðarskógum.

Hópurinn vann einnig margvísleg störf í gegnum verkefnið „Margar hendur vinna létt verk“ en þar ber helst að nefna aðstoð í árlegum sumarbúðum Dropans fyrir sykursjúk börn á Löngumýri. Hópurinn aðstoðaði við slátt í kirkjugörðum og umhirðu í gólfklúbbnum Ós ásamt því að vinna ýmis störf fyrir Húnavatnshrepp s.s. grasslátt, þrif, hirðingu beða, málun og annað viðhald.

Við Laxárstöð störfuðu 3 ungmenni og einn verkstjóri í sumar. Hópurinn sá um slátt og hirðingu við Laxárstöð og Þeistareyki. Ungmennin þrifu vélar og stövarhús í  tengslum við ársskoðun og árlegt viðhald vélbúnaðar í Laxárstöð.

Við Kröflustöð störfuðu 11 ungmenni og tveir verkstjórar í sumar en hóparnir unnu meðal annars að eyðingu lúpínu og skógarkerfils í samstarfi við Umhverfisstofnun og aðstoðuðu við viðhald á gönguleiðum. Hópurinn sá um slátt og hirðingu á Krossdalsvelli á golfvellinum í Mývatnssveit ásamt því að fegra svæðið á Þeistareykjum.

Í Fljótsdalsstöð störfuðu 18 ungmenni ásamt tveimur verkstjórum en auk hefðbundinna sumarstarfa einbeitti hópurinn sér að umhverfisfegrun á áhrifasvæði Kárahnjúkavirkjunar. Hópurinn vann fjöldamörg verkefni í gegnum „Margar hendur vinna létt verk“ og má þar helst nefna uppgræðsluverkefni með Landbótasjóð Norður-Héraðs í Jökuldal og á Jökuldalsheiði en það verkefni hefur skilað miklum árangri. Ungmennin sáu um fegrun umhverfis, meðal annars í samstarfi við ungmennafélagið Hött, Kirkjubæ og  Eiríksstaðarkirkjugarð, tíndu rekavið á Héraðsströndum og aðstoðuðu við uppsetningu almenningsgarðs sem á að rísa í hjarta Seyðisfjarðar.

Í Búrfellsstöð störfuðu 25 ungmenni og tveir verkstjórar. Hópurinn sá um fegrun umhverfis stöðvarhúsið og við fornbæinn Stöng í Þjórsárdal.  Gróðursettar voru um 34.000 birkiplöntur við Bjarnalón og um 600 kílóum af áburði var dreift á eldri plöntur í samstarfi við Skógræktarfélag ríkisins. Göngustígur að Hjálparfossi var lagfærður og nýr göngustígur lagður í gegnum Búrfellsskóg.

Við Sogsstöðvar unnu 31 ungmenni ásamt tveimur verkstjórum. Verkefnin voru fjölbreytt og má þar nefna gróðursetningu á yfir 2.500 plöntum í Dráttarhlíð ofan Steingrímsstöðvar og lagningu göngustíga við Þrastarlund í samstarfi við UMFÍ. Einnig var unnið við Úlfljótsvatn við rofvarnir en bakkarnir sem slúta voru stungnir niður, kökkurinn settur í vatnsborðið og sléttað og sáð í sárið. Að lokum er svo raðað grjóti í vatnsborðið til að hlífa bakkanum. Alls hafa verið lagaðir rúmir 1100 metrar síðastliðin tvö sumur og hefur árangur rofvarnastarfsins reynst afar góður. 

Fréttasafn Prenta