Frétt

Breytingar á skipan framkvæmdastjórnar Landsvirkjunar

28. febrúar 2012

Breytingar á skipan framkvæmdastjórnar Landsvirkjunar

Tilkynnt hefur verið um skipulagsbreytingar á framkvæmdastjórn Landsvirkjunar en ákveðið hefur verið að starfsmannasvið og upplýsingasvið skuli nú tilheyra skrifstofu forstjóra og vera undir stjórn Rögnu Árnadóttur, sem mun gegna starfi aðstoðarforstjóra Landsvirkjunar. Á skrifstofu forstjóra eru nú staðsettar allar stoðdeildir fyrirtækisins sem annast úrvinnslu sameiginlegra mála fyrirtækisins.

Sturla Jóhann nýr starfsmannastjóri Landsvirkjunar

Sturla Jóhann Hreinsson hefur verið ráðinn starfsmannastjóri Landsvirkjunar og hefur þegar hafið störf.

Sturla Jóhann er með M.Sc/Cand.Psych í vinnusálfræði frá Aarhus University í Danmörku og BA próf í sálfræði frá Háskóla Íslands. Sturla Jóhann hefur undanfarin tvö ár starfað sem framkvæmdastjóri Storðar ehf. sem hefur í samstarfi við Hagvang veitt ráðgjöf með áherslu á mannauðs- og rekstrarmál. Hann var starfsmannastjóri Nýherja á árunum 2003-2010, vann við rannsóknir hjá IESE Business School í Barcelona 2002-2003 og starfaði hjá Símanum á árunum 1999-2002, meðal annars sem starfsþróunarstjóri.

Sturla Jóhann hefur um árabil verið stundakennari í mannauðsstjórnun og fleiri greinum í Háskólanum í Reykjavík og sat í stjórn Klaks, Nýsköpunarmiðstöðvar atvinnulífsins.

Sturla Jóhann er kvæntur Guðrúnu Helgu Hamar forstöðumanni hjá Arion Banka, og eiga þau þrjú börn.

Fréttasafn Prenta