Frétt

Landsvirkjun eignast 30,32% hlut í Sjávarorku ehf. í gegnum hlutafjáraukningu

4. apríl 2012

Landsvirkjun hefur eignast 30,32% hlut í Sjávarorku ehf. í gegnum hlutfjáraukningu, sem samþykkt var á hluthafafundi félagsins í síðasta mánuði. Landsvirkjun skráði sig fyrir hlutafjáraukningu að nafnverði kr. 3.350.000,- á genginu 6,0 og greiddi fyrir hlutinn kr. 20.100.000,-. Stærstu eigendur fyrir utan Landsvirkjun eru Rarik Orkuþróun ehf. með rúmlega þriðjungshlut og Skipavík ehf., Stykkishólmi, með um 20% hlut.

Eitt af markmiðum Landsvirkjunar er að vera í fararbroddi í nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa á Íslandi. Landsvirkjun hefur styrkt verkefni til rannsókna á nýtingu sjávarorku í gegnum Orkurannsóknasjóð Landsvirkjunar. Með því að gerast hluthafi í Sjávarorku ehf. fær Landsvirkjun tækifæri til að gerast beinn þátttakandi að verkefni þar sem búið er að vinna töluverða undirbúningsvinnu.

Sjávarorka ehf. var stofnað í Stykkishólmi í apríl 2001 og er tilgangur félagsins að rannsaka möguleika á virkjun sjávarfallastrauma í Breiðafirði og að hafa forystu um virkjun. Á árinu 2002 var lokið við gerð sjókorts af svæðinu í mynni Hvammsfjarðar í samvinnu við Sjómælingar Íslands (nú Landhelgisgæslan). Í apríl 2005 var hafist handa við straumamælingar. Mælingarnar og úrvinnsla gagna er unnin í samstarfi við verkfræðistofuna Vista ehf. og verkfræðistofuna Verkís. Lok mælinga í fyrsta áfanga lauk haustið 2007 og hefur jafnframt verið gefin út áfangaskýrsla um orkugetu sjávarfalla í Hvammsfirði vorið 2008. Rannsóknarleyfi var gefið út af Orkustofnun 15. janúar 2010 og gildir til 31. desember 2016.

Nýting sjávarorku er mjög skammt á veg komin í heimunum og hefur einungis ein tegund sjávarorku komist af tilraunastiginu þ.e. sjávarfallavirkjanir þar sem fallhæð flóðs og fjöru er nýtt með tilheyrandi stíflumannvirkjum sem þvera firði, voga eða víkur. Í mörgum löndum er unnið að tækniþróun til að beisla sjávarfallastrauma,  sjávarstraum og orku í öldum en tæknin er enn sem komið er á hugmyndastigi og fá verkefni hafa verið reynd við náttúrulegar aðstæður.

Fréttasafn Prenta