Frétt

Sæstrengur, samhliða iðnaðaruppbyggingu, líklega eitt stærsta viðskiptatækifæri sem Íslendingar hafa staðið frammi fyrir

12. apríl 2012

Yfir 450 gestir mættu á ársfund Landsvirkjunar sem haldinn var í Hörpu í dag. Í erindi Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar, kom meðal annars fram að Ísland hefur nú um stundir mikla sérstöðu meðal Evrópuþjóða í möguleikum á aukinni raforkuvinnslu með endurnýjanlegri orku. Aukna orkuvinnslu mætti nýta til að byggja áfram upp fjölbreyttan iðnað og samhliða til að eiga viðskipti með raforku um sæstreng til Evrópu.

Hörður lagði áherslu á að lagning sæstrengs ætti ekki að koma í staðinn fyrir frekari iðnaðaruppbyggingu á Íslandi heldur gæti þvert á móti orðið viðbót og færi vel saman við áframhaldandi uppbyggingu iðnaðar í landinu. Í máli Harðar kom einnig fram að  hægt væri að hlífa heimilum við mögulegum verðhækkunum ef fyrir því er vilji og hvetur Landsvirkjun til að kannað verði hvaða leiðir væru hentugar í því efni.

Lagning sæstrengs til Evrópu, samhliða öflugri iðnaðaruppbyggingu á Íslandi, er líklega eitt stærsta viðskiptatækifæri sem Íslendingar hafa staðið frammi fyrir,“ sagði Hörður.

Hörður lagði áherslu á nauðsyn þess að breið sátt þyrfti að verða um verkefnið í íslensku samfélagi. Staðfesta þarf forsendur áður en fullyrt er endanlega um hagkvæmni verkefnisins. Landsvirkjun leggur nú til að á næstu 1-2 árum verði ráðist í frekari greiningar og rannsóknir á samfélagslegum, lagalegum og tæknilegum atriðum tengd verkefninu í samstarfi stjórnvalda, háskóla, hagsmunasamtaka, orkufyrirtækja og fleiri hagsmunaaðila

Í erindi sínu nefndi Hörður einnig að breyttar aðstæður á fjármagnsmörkuðum kalla á nýja nálgun við fjármögnun Landsvirkjunar. Með því að leggja áherslu á aukið eigið fé frá eiganda í stað þess að uppbygging yrði eingöngu drifin áfram af auknum lánum mætti minnka áhættu í rekstrinum og tryggja að arðgreiðslur skili sér fyrr til eigandans.

Hordur2Oddny1

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar     -         Oddný G. Harðardóttir, fjármálaráðherra

Oddný G. Harðardóttir, fjármálaráðherra, ávarpaði fundinn og tilkynnti að hún hefði ákveðið að skipa starfshóp til þess að hefja könnun á hagkvæmni þess að leggja sæstreng á milli Íslands og Bretlandseyja eða meginlands Evrópu og mun hún kalla eftir tilnefningum allra þingflokka í starfshópinn.

Bryndís Hlöðversdóttir, stjórnarformaður Landsvirkjunar, lagði í ávarpi sínu áherslu á mikilvægi þess að stjórnvöld setji sér eigandastefnu fyrir fyrirtæki í eigu ríkisins eins og Landsvirkjun en í henni yrðu settar fram lykiláherslur í rekstri, skilgreindar helstu væntingar til fyrirtækjanna og gerð grein fyrir markmiðum ríkisins með eignarhaldinu. 

Rafnar Lárusson, fjármálastjóri Landsvirkjunar, kynnti ársuppgjör 2011 en sjóðstreymi Landsvirkjunar heldur áfram að batna. Skuldsetning er þó enn of mikil og næstu árin verður áfram lögð áhersla á endurgreiðslu skulda og að minnka áhættu í rekstrinum.

Bryndis2 Rafnar1

Bryndís Hlöðversdóttir, stjórnarformaður Landsvirkjunar - Rafnar Lárusson, fjármálastjóri Landsvirkjunar

 

Kynningar ræðumanna má finna hér að neðan:

Kynning Harðar Arnarsonar

Kynning Rafnars Lárussonar

Fréttasafn Prenta