Frétt

Athugasemdir Landsvirkjunar við þingsályktunartillögu um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða

9. maí 2012

Að beiðni nefndasviðs Alþingis hefur Landsvirkjun fjallað um tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, þingskjal 1165, sem lögð hefur verið fyrir Alþingi á 140. löggjafarþingi 2011-2012.

Af hálfu Landsvirkjunar er eindregið lagt til að breytingar verði gerðar á þingsályktunar­tillögunni eins og nánar er rakið í umsögn þessari og fylgiskjali. Laga þarf efni þings­ályktunartillögunnar að þeim ramma, sem löggjafinn hefur sett í lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun nr. 48/2011. Ekki verður séð að tekið hafi verið tillit til hagkvæmni og arðsemi virkjunarkosta svo sem nánar er rakið hér á eftir. Landsvirkjun telur rökin fyrir færslu á fimm virkjunarkostum úr orkunýtingarflokki í biðflokk veigalítil og telur sterk rök fyrir því að fækka virkjunarkostum í verndarflokki.

Við undirbúning þingsályktunartillögunnar gerði Landsvirkjun m.a. athugasemdir um þessi atriði með bréfi dags. 9. nóvember 2011. Hvorki var tekið tillit til þeirra athugasemda, né fjallað um þær í greinargerð við tillöguna.

Í þessari umsögn eru megin athugasemdir Landsvirkjunar raktar í stuttu máli. Umsögninni fylgir greinargerð með ítarlegri rökstuðningi og jafnframt vísað til bréfs Landsvirkjunar frá 9. nóvember 2011 um athugasemdir við drög að þingsályktunartillögunni sem fylgir hér með.

Hagkvæmni og arðsemi eru sniðgengin. Hagkvæmni og arðsemi eru sniðgengin við flokkun virkjunarkosta í orkunýtingar-, bið- og verndarflokk. Það er í andstöðu við markmið laga nr. 48/2011 sem þingsályktunartillagan byggir á. (1. gr. laganna er svohljóðandi: Markmið laga þessara er að tryggja að nýting landsvæða þar sem er að finna virkjunarkosti byggist á langtímasjónarmiðum og heildstæðu hagsmunamati þar sem tekið er tillit til verndargildis náttúru og menningarsögulegra minja, hagkvæmni og arðsemi ólíkra nýtingarkosta og annarra gilda sem varða þjóðarhag, svo og hagsmuna þeirra sem nýta þessi sömu gæði, með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.) Enginn virkjunarkostur vatnsafls í hagkvæmniflokkum 1, 2 og 3 er í orkunýtingarflokki samkvæmt þingsálykt­unartillögunni. Einungis tveir litlir og óhagkvæmir vatnsaflskostir, samtals með um 440 GWst/ári orkugetu (um 2,6% vatnsafls til umfjöllunar), eru settir í orkunýtingarflokk, annar í flokk 4 og hinn í flokk 5. Stofnkostnaður virkjana í flokki 5 eru tvöfallt hærri en virkjana í flokki 2 og því mikill munur á arðsemi.

Flokkun virkjunarkosta í verndarflokk útilokar frekari athuganir. Stjórnvöld skulu hefja undirbúning friðlýsingar á virkjunarkostum í verndarflokki þegar Alþingi hefur samþykkt þingsályktunartillöguna (lög nr. 48/2011). Það útilokar nánast að hægt sé að leggja fram endurskoðaðar og umhverfisvænni tilhaganir á kostum sem fara í verndarflokk. Vinna við 2. áfanga rammaáætlunar var komin á lokastig þegar lög nr. 48/2011 tóku gildi og ætla má að orkufyrirtækin hefðu beðið með að senda gögn um suma þeirra kosta sem lagt er til að falli í verndarflokk ef þeim hefði verið ljóst að friðlýsa ætti þessi svæði á grundvelli þeirra gagna. Þegar Landsvirkjun sendi verkefnisstjórninni upplýsingar um kosti sem voru til skoðunar hjá fyrirtækinu taldi Landsvirkjun að gagnlegt væri að fá mat verkefnisstjórnar og faghópa á hugmyndunum við áframhaldandi undir­búning enda þótt rannsóknir og athuganir á nokkrum þessara kosta væru stutt á veg komin. Á það, hvort framkvæmd yrði leyfð, myndi reyna við mat á umhverfisáhrifum, meðferð umsóknar um virkjunarleyfi o.fl.

Gögn skortir til flokkunar á vatnsaflsvirkjunarkostum. Annar áfangi rammaáætlunar nær einungis til kosta í um 20 stórum vatnsföllum af um 120 sem eru með vatnasvið yfir 200 km2. Landsvirkjun telur óráðlegt að leggjast í jafn víðtæka verndun með tilheyrandi friðlýsingu á vatnsaflskostum eins og gert er í þingsályktunartillögunni fyrr en saman­burðarhæf gögn um öll helstu vatnasvæði landsins liggja fyrir.

Flokkun virkjunarkosta sem Landsvirkjun hefur í undirbúningi. Landsvirkjun er ósammála flokkun einstakra virkjunarkosta sem Landsvirkjun hefur í undirbúningi og telur brýnt að henni verði breytt. Ekkert tillit hefur verið tekið til athugasemda Landsvirkjunar við drögin, eins og rakið er í meðfylgjandi greinargerð. Hins vegar hefur verið tekið tillit til umsagna sem ganga þvert á athugasemdir Landsvirkjunar og breytingar gerðar á drögum að þingsályktunartillögu og fimm virkjunarkostir færðir úr orkunýtingarflokki í biðflokk. Allir þessir kostir eru í undirbúningi hjá Landsvirkjun og þrír þeirra eru í hópi þeirra virkjunarkosta sem lengst eru komnir í undirbúningi. Lögbundnu mati á umhverfisáhrifum er lokið fyrir þá.

Landsvirkjun leggur til við nefndina að þær breytingar sem gerðar voru á flokkun virkjunarkosta frá drögum að þingsályktunartillögu gangi til baka, það er að:

  • Virkjanir í neðri hluta Þjórsár fari aftur í orkunýtingarflokk. Áhrif þessara virkjana á lax eru ólík. Hvammsvirkjun og Holtavirkjun hafa ekki áhrif á náttúrulegt búsvæði laxfiska og því er ekki ástæða til að setja þær virkjanir í biðflokk vegna skorts á upplýsingum um laxfiska. Þegar hefur verið gerður fiskistigi upp fyrir fyrirhugaða Holtavirkjun sem tvöfaldað hefur stærð laxgengra svæða og er góð reynsla komin á fiskistigann. Landsvirkjun telur að þær umsagnir, sem fram komu í umsagnarferlinu um drög að þingsályktunartillögunni, gefi ekki tilefni til að færa virkjunarkosti í neðri hluta Þjórsár úr nýtingarflokki í biðflokk. Engar nýjar upplýsingar hafa komið fram sem kalla á þá breytingu. Landsvirkjun telur því rétt að Urriðafossvirkjun verði jafnframt sett í nýtingarflokk. Ef vilji stendur til þess, væri unnt að skilyrða nýtingu Urriðafossvirkjunar, þannig að sýna þyrfti fram á virkni mótvægisaðgerða vegna laxfiska við efri virkjanirnar tvær áður en virkjunarleyfi fyrir Urriðafossvirkjun yrði gefið út.
  • Skrokkölduvirkjun og Hágönguvirkjun fari aftur í orkunýtingarflokk. Skrokkölduvirkjun er fjarri Vatnajökulsþjóðgarði og virkjar fall milli tveggja mann­gerðra lóna Landsvirkjunar. Orkuvinnslusvæðið við Hágöngur er innan skilgreinds mannvirkjabeltis á staðfestu svæðisskipulagi miðhálendisins og á aðalskipulagi Ásahrepps. Ekki verður séð að nýting jarðhita við Hágöngur hafi áhrif á þau land­fræðilegu fyrirbæri sem verið er að vernda með myndun Vatnajökulsþjóðgarðs. Við veitingu rannsóknarleyfis til Landsvirkjunar vegna Hágönguvirkjunar í janúar 2011 bárust umsagnir m.a. frá Vatnajökulsþjóðarði og Umhverfisstofnun og var þar hvergi minnst á að fyrirhugað virkjunarsvæði væri innan áhrifasvæðis „buffer zones“ þjóðgarðsins. Minnt er á að þessir kostir ásamt línulögnum eiga eftir að fara í mat á umhverfisáhrifum áður en endanlegar ákvarðanir eru teknar um framkvæmdir.

Landsvirkjun ítrekar jafnframt fyrri athugasemdir sínar við flokkun eftirfarandi virkjunarkosta og fer fram á að flokkun þeirra verði breytt með eftirfarandi hætti:

  • Gjástykki nr. 100 fari í biðflokk
  • Tungnaárlón – Bjallavirkjun nr. 24 og 25 fari í biðflokk
  • Norðlingaölduveita nr. 27 fari í orkunýtingarflokk.
  • Hólmsárvirkjun neðri nr. 21 fari í orkunýtingarflokk


Nánari umfjöllun og rökstuðning við þessa kröfu er að finna í meðfylgjandi greinargerð og bréfi sem Landsvirkjun sendi við drög að þingsályktuninni þann 9. nóvember 2011.

Umsögn Landsvirkjunar um tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða

Greinagerð með umsögn Landsvirkjunar (Fylgiskjal 1)

Athugasemdir við þingsályktunartillögu um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða (Fylgiskjal 2)

Fréttasafn Prenta