Frétt

Helstu þættir rafmagnssamnings vegna álvers í Reyðarfirði

7. janúar 2003

Raforkusamningar sem þessi eru mjög flókin plögg en í þeim er margt annað en ákvæði um raforkuverð.

Að neðan getur að líta nokkur atriði úr samningnum.

  • Samningurinn verður milli Landsvirkjunar og Fjarðaáls sem byggir og rekur álverið, en það fyrirtæki verður að fullu í eigu móðurfélagsins Alcoa Inc. í Bandaríkjunum.
  • Móðurfélagið Alcoa Inc. mun undirrita samninginn m.t.t. þess að ábyrgjast kaupskyldu á raforkunni og ábyrgðar á verklokum við byggingu álversins.
  • Samningstíminn er 40 ár frá því að álverið er komið í fullan rekstur en endursamið verður um orkuverðið á miðjum tímabilinu og mun nýtt orkuverð þá gilda á síðari 20 árum samningstímans.
  • Orkumagn samningsins er 4.704 GWst, (gígawattstundir), en 10% þessa magns verður afgangsorka sem skerða má við erfiðar aðstæður í raforkukerfinu.
  • Áætlað er að afhenda rafmagn á fyrstu ker álversins 1. apríl 2007 og að fullri framleiðslu verði náð 1. október sama ár.
  • Orkuverðið verður tengt heimsmarkaðsverði á áli eins og það er skráð á hverjum tíma hjá LME, (London Metal Exhange), Málmmarkaði Lundúna.
  • Þegar endursamið verður um orkuverðið skal hafa hliðsjón af orkuverði til álvera í heiminum, eins og það verður á þeim tíma.
  • Fjarðaál ber skyldu til þess að gjalda fullt verð fyrir 85% af samningsbundinni orku óháð notkun. Kaupskyldan gildir allan 40 ára samningstímann og er hún baktryggð af móðurfélaginu Alcoa Inc. eins og fyrr getur.
  • Verði grundvallarbreytingar í álheiminum eða orkuheiminum á samningstímanum sem sannanlega valda því að halli verulega á annan aðila samningsins hvað áhættu og arð af verkefninu varðar þá getur sá aðilinn sem á er hallað óskað eftir endurskoðun orkuverðsins.

 

Fréttasafn Prenta