Frétt

Úttekt á undirbúningsvinnu vegna Hvammsvirkjunar

22. maí 2012

Dagana 21.-25. maí fer fram hjá Landsvirkjun úttekt á vinnu vegna undirbúnings Hvammsvirkjunar í neðanverðri Þjórsá samkvæmt nýjum alþjóðlegum matslykli um sjálfbærni vatnsaflsvirkjana. Matslykillinn er unninn að frumkvæði Alþjóða vatnsorkusamtakanna, e. International Hydropower Association (IHA). Landsvirkjun hefur unnið með IHA að þróun matslykilsins frá árinu 2008 en hann skilgreinir hversu vel starfsemi vatnsaflsvirkjana fellur að markmiðum um sjálfbæra þróun.

Alþjóðlegur matslykill um sjálfbæra nýtingu vatnsafls

Breiður hópur hagsmunaaðila hefur komið að þróun matslykilsins, meðal annars alþjóðleg samtök á sviði þjóðfélags- og umhverfismála, (Oxfam, Transparency International, World Wide Fund for Nature (WWF) og The Nature Conservancy), Alþjóðabankinn og ríkisstjórnir nokkurra landa, þ.á.m. Íslands, með þátttöku Guðna Jóhannessonar orkumálastjóra. Matslykillinn byggir á stöðlum í yfir 20 flokkum sem ætlað er að lýsa sjálfbærni vatnsaflsvirkjana og beita má honum á mismunandi stigum, við forhönnun, verkhönnun, byggingu og rekstur virkjana. Eins og kynnt var á haustfundi Landsvirkjunar 2010 áformar Landsvirkjun að beita matslyklinum á virkjanir sínar, allt frá fyrstu stigum undirbúnings virkjana en einnig við mat á rekstri þeirra aflstöðva sem fyrirtækið hefur rekið um áratugaskeið. Þess er vænst að niðurstöðurnar leiði í senn til betri undirbúnings og framkvæmda sem og aukinnar sjálfbærni virkjana í rekstri.

Úttektin er byggð á því að alþjóðlegir úttektaraðilar kynna sér undirbúning virkjunarinnar í þessari viku og kalla svo inn viðmælendur til viðræðna og staðfestingar á því að fyrirliggjandi gögn séu rétt og eins að hlusta eftir hvort einhverju sé ábótavant eða uppi séu önnur sjónarmið varðandi framkvæmdina. Munu þeir eiga fundi í vikunni með fjölda hagsmunaaðila auk fulltrúa Landsvirkjunar.

Með sjálfbæra nýtingu að leiðarljósi

Hlutverk Landsvirkjunar er að hámarka afrakstur af þeim orkulindum sem fyrirtækinu er trúað fyrir með sjálfbæra nýtingu, verðmætasköpun og hagkvæmni að leiðarljósi.  Landsvirkjun leggur því mikla áherslu á að nýta orkulindir með sjálfbærum hætti, með tilliti til áhrifa á efnahag, samfélag og umhverfi. Í vatnsaflsvirkjunum er leitast við að hámarka nýtingu auðlindarinnar að teknu tilliti til umhverfissjónarmiða sem miða að því að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif.

Vatnsafl er stærsti endurnýjanlegi orkugjafinn til raforkuvinnslu í heiminum. Mikið vatnsafl er enn óbeislað og getur það gegnt afar þýðingarmiklu hlutverki við að draga úr notkun mengandi orkugjafa, svo sem kola og olíu til raforkuvinnslu og við að tryggja íbúum þróunarlanda aðgang að rafmagni. Mikilvægt er að virkjun vatnsafls verði hagað á þann hátt að nýting auðlindarinnar verði sjálfbær en þróun alþjóðlegs matslykils er mikilvægt skref í þá átt.

Fréttasafn Prenta