Frétt

Orka úr iðrum jarðar

13. júní 2012

 

Orkusýningar í aflstöðvum Landsvirkjunar opnar í sumar

Fjöldi fólks sækir Landsvirkjun heim ár hvert en sumarið 2011 heimsóttu rúmlega 19.000 manns gestastofur Landsvirkjunar og kynntu sér endurnýjanlega orkugjafa á orkusýningum í aflstöðvum fyrirtækisins. Landsvirkjun er með opnar gestastofur í Kröflustöð á Norðausturlandi, í Végarði hjá Fljótsdalsstöð á Austurlandi og í Búrfellsstöð á Suðurlandi. Sumarið 2012 verður einnig opið í Ljósafossstöð en þar munu Skátarnir setja upp sýningu í tilefni 100 ára afmælis skátastarfs á Íslandi.

Ný orkusýning í Kröflustöð

Í Kröflustöð er fjölsóttasta gestastofa Landsvirkjunar en tæplega 8.000 manns sóttu stöðina heim árið 2011 og var því á síðasta ári ákveðið að ráðast í endurbætur á sýningunni fyrir sumarið 2012.

Ný sýning í Kröflustöð varpar ljósi á þá krafta sem búa í iðrum jarðar og hvernig vinna má raforku úr jarðvarma. Boðið er upp á fræðslu um endurnýjanlega orkugjafa sem og merkilega sögu Kröflustöðvar þar sem eldgos og beislun orkunnar fóru fram á sama tíma. Sýningin var hönnuð af Gagarín, í samvinnu við Landsvirkjun. Einnig var endurgerð kvikmynd um Kröfluelda eftir nýju handriti Ara Trausta Guðmundssonar.

Opið er alla daga vikunnar í júní, júlí og ágúst en nánar um sýningar og opnunartíma hverrar stöðvar má lesa á gestir.landsvirkjun.is

Kroflustod_ThTh

 

Fréttasafn Prenta