Frétt

Jarðhitarannsóknir á Torfajökulssvæðinu

30. janúar 2003

Fyrirtækið sótti um rannsóknaleyfi til iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis á vesturhluta Torfajökulssvæðisins í mars 2002. Það gerði einnig annað orkufyrirtæki.

Að fenginni umsögn Orkustofnunar hafnaði ráðuneytið umsókninni í september sl. með tilvísun í þrjár ástæður:

  • Undirstöðurannsóknum er ekki lokið.
  • Eftir er að meta hvernig nýtingu skuli háttað, s.s. hvernig skuli aðgreina þetta víðfeðma svæði í undirsvæði.
  • Nauðsynlegt er að marka stefnu um hvernig skuli úthluta rannsóknar- og nýtingarleyfum þegar margir eru um hituna.

Ráðuneytið taldi að vegna þeirra raka sem fram koma í fyrsta og öðrum lið sé ekki unnt að veita rannsóknarleyfi á svæðinu að svo stöddu.

Sveitarfélögin á svæðinu hafa sýnt virkjunaráformum mikinn skilning og tóku þau upp við gerð aðalskipulags af svæðinu. Landsvirkjun hefur aðstoðað þau með upplýsingagjöf við það verk. Þessi aðstoð hófst áður en úrskurður ráðuneytisins lá fyrir og með vitund þess frá fyrstu tíð. Einu rannsóknirnar sem fram fara á svæðinu vinnur Orkustofnun fyrir Landsvirkjun og felast þær í mælingum á grunnástandi svæðisins og hófust þær á fyrra ári.

Umfjöllun Ríkisútvarpsins sem leiddi til umræðna á Alþingi í dag um þetta mál er byggð á misskilningi enda höfðu fréttamenn þeirrar stofnunar ekkert samband við Landsvirkjun til að kynna sér staðreyndir málsins.

Fréttasafn Prenta