Frétt

Landsvirkjun gerir raforkusölusamning við GMR Endurvinnsluna ehf.

22. júní 2012

Landsvirkjun og GMR Endurvinnslan ehf. (Geothermal Metal Recycling) tilkynntu í dag að fyrirtækin hafa komist að samkomulagi um nýjan raforkusölusamning. Í samningnum felst að Landsvirkjun afhendir allt að 10 MW af rafmagni til næstu 7 ára. Orkuna mun GMR Endurvinnslan ehf. nota til að endurvinna straumteina og tindaefni sem notað er við álframleiðslu. Jafnframt mun GMR endurvinna og framleiða stál í stangir til útflutnings. Uppbygging verksmiðju GMR á Grundartanga er nú í fullum gangi og er gert ráð fyrir að rekstur hefjist í ársbyrjun 2013. Í fyrstu er gert er ráð fyrir framleiðslu um 30.000 tonna á ári en framleiðslugeta verksmiðjunnar er um 100.000 tonn á ári.

 

„Við gleðjumst yfir að hafa náð samkomulagi við GMR Endurvinnsluna ehf. í dag. Fyrirtækið er góð viðbót við viðskiptavinahóp okkar og eykur fjölbreytileika hans, sem er eitt af megin markmiðum markaðsstefnu Landsvirkjunar. Einnig er jákvætt að sjá aukna verðmætasköpun verða til sem byggir á því mikla uppbyggingarstarfi sem hefur verið unnið í áliðnaðnum á Íslandi á undanförnum áratugum.  Starfsemi GMR nýtist auk þess umhverfinu í ljósi þess að hér er um að ræða hagkvæma endurvinnslu með endurnýjanlegri orku,“ segir Hörður Arnarsson forstjóri Landsvirkjunar.

 

  120622-Samningur-GMR-og-LV-mynd

Frá Landsvirkjun: Magnús Bjarnason, framkvæmdastjóri Markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs, Ríkarður Ríkarðsson, viðskiptastjóri, Hörður Arnarson forstjóri og Jón Sveinsson yfirmaður lögfræðimála. Frá GMR: Eyþór Arnalds stjórnarformaður og Arthur Guðmundsson framkvæmdastjóri.

 

Fréttasafn Prenta