Frétt

Landsvirkjun og PCC skrifa undir raforkusölusamning fyrir kísilmálmverksmiðju við Húsavík

28. júní 2012

Landsvirkjun tilkynnti í dag að skrifað hefur verið undir nýjan raforkusölusamning við PCC BakkiSilicon hf., íslenskt dótturfélag PCC SE frá Þýskalandi. Samkvæmt samningnum mun Landsvirkjun afhenda rafmagn unnið úr endurnýjanlegum orkugjöfum til kísilmálmverksmiðju, sem PCC áætlar að reisa á Bakka við Húsavík. Áætlað er að kísilmálmverksmiðjan, sem verður með 32 þúsund tonna framleiðslugetu, taki til starfa í lok árs 2015 og þurfi 52 MW af afli eða 456 GWst af raforku á ári.

„Við erum ánægð með að geta boðið PCC og þennan iðnað velkominn í stækkandi viðskiptavinahóp Landsvirkjunar. Kísilmálmframleiðsla á spennandi framtíðarmöguleika á Íslandi þar sem við getum boðið raforku á samkeppnishæfustu kjörum í Evrópu. Fyrirtækið er enn ein góð viðbót við viðskiptavinahóp okkar og eykur fjölbreytileika hans, sem er eitt af markmiðum markaðsstefnu okkar," segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar. „Jafnframt mun verkefnið styrkja iðnaðaruppbygginguna á Norðausturlandi, sem er með áhugaverðustu svæðum til iðnaðarþróunar í Evrópu.“

„Síðustu 18 mánuði hefur PCC átt einstaklega fagmannlegt og traust samstarf við Landsvirkjun og undirritun raforkusölusamnings í dag markar merkan áfanga í kísilmálmverkefni okkar,“ segir Waldemar Preussner, eigandi PCC SE. „Við finnum fyrir miklum stuðningi frá öllum samstarfsaðilum okkar á Íslandi og munum af okkar hálfu gera okkar besta til að leiða iðnaðaruppbygginguna á Bakka, þar sem við teljum vera framúrskarandi aðstæður til að verksmiðjan geti orðið að veruleika.“

Landsvirkjun er eitt af leiðandi orkufyrirtækjum í Evrópu á sviði endurnýjanlegra orkugjafa og vinnur 75% allrar raforku á Íslandi. Með undirritun þessa langtíma raforkusölusamnings til 15 ára staðfestist enn á ný samkeppnishæfni Landsvirkjunar og viðskiptaumhverfis á Íslandi fyrir iðnaðaruppbyggingu. Samningurinn er undirritaður með ákveðnum fyrirvörum, þ.m.t. um tilheyrandi leyfisveitingar, samninga við íslenska ríkið og Landsnet og fjármögnun, sem er áætlað að verði lokið fyrir maí 2013.


Um PCC:
PCC myndar alþjóðlegan hóp fyrirtækja sem starfa undir forystu PCC SE með aðsetur í Duisburg, Þýskalandi. Starfsmenn PCC eru um 2.300 í yfir 70 dótturfélögum og tengdum félögum með starfsemi í 12 löndum. Framleiðsla og sala PCC fer fram á þremur sviðum, efnavöru, orku og flutningaþjónustu. Velta ársins 2011 var 614,8 milljónir evra. Nánar um PCC á www.pcc.eu

Fréttasafn Prenta